Erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið

Íslenska landsliðið á æfingu á King Baudouin Stadium í dag.
Íslenska landsliðið á æfingu á King Baudouin Stadium í dag. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Það er erfitt að rýna í það hvernig byrjunarlið Íslands mun líta út í leiknum á móti Belgíu í Þjóðadeild UEFA sem fram fer í Brussel annað kvöld.

Eins og fram hefur komið hefur íslenska liðið orðið fyrir mikilli blóðtöku en hvorki fleiri né færri en níu menn eru á sjúkralistanum. Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason, Birkir Már Sævarsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Emil Hallfreðsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Jón Daði Böðvarsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Björn Bergmann Sigurðarson eru allir frá vegna meiðsla og Ragnar Sigurðsson tekur út leikbann annað kvöld.

Líklegt má ætla að Erik Hamrén stilli upp leikkerfinu 4:5:1 en hvernig hann mun stilla upp liðinu er erfitt að spá í. Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason, Aron Einar Gunnarsson og Alfreð Finnbogason verða örugglega í byrjunarliðinu en hinir sjö eru spurningarmerki.

Sá möguleiki er fyrir hendi að Ari Freyr Skúlason spili í stöðu hægri bakvarðar eða Sverrir Ingi Ingason sem er miðvörður að upplagi og Jón Guðni Fjóluson leiki þá í miðvarðarstöðunni. Þá er spurning hvort ungu mennirnir Arnór Sigurðsson og Albert Guðmundsson fái tækifæri í byrjunarliðinu. Arnór eða nafni hans, Traustason, verða á vinstri vængnum og Albert fremstur á miðjunni eða Arnór Sigurðsson.

Hugsanlegt byrjunarlið Íslands: Hannes Þór Halldórsson - Sverrir Ingi Ingason, Kári Árnason, Jón Guðni Fjóluson, Hörður Björgvin Magnússon - Rúrik Gíslason, Guðlaugur Victor Pálsson, Albert Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Arnór Ingvi Traustason - Alfreð Finnbogason.

Samkvæmt heimildum mbl.is munu Belgar stilla upp í leikkerfið: 3-4-2-1.

Líklegt byrjunarlið Belgíu: Courtois - Alderweireld, Kompany, Boyata - Meunier, Tielemans, Witsel, Th. Hazard - Mertens, E. Hazard - Batshuayi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert