Berglind lánuð til PSV – „Varð strax spennt“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir með treyju PSV.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir með treyju PSV. Ljósmynd/Aðsend

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks, hefur verið lánuð til PSV í Hollandi þar sem hún mun spila fram á vor. Hún mun hins vegar snúa aftur til Blika fyrir fyrsta leik liðsins í Pepsi-deildinni 2. maí.

Berglind, sem varð markadrottning Pepsi-deildarinnar síðasta sumar með 19 mörk í 18 leikjum þegar Breiðablik vann tvennuna, fékk fyrst að heyra af áhuga PSV eftir landsleik Íslands og Skotlands á Spáni á mánudag.

„Ég fékk símtal eftir landsleikinn á mánudaginn. Þá var mér sagt að liðið hefði áhuga á því að fá mig og ég ákvað að slá til. Mér finnst fínt að fara bara á lán. Það er svo langt undirbúningstímabil hérna heima svo það er gaman að breyta til, brjóta þetta aðeins upp og fá að spila alvöruleiki þarna úti. Koma svo fersk til baka þegar tímabilið byrjar,“ sagði Berglind við mbl.is.

Hjá PSV mun Berglind hitta fyrir Önnu Björk Kristjánsdóttur sem gekk í raðir PSV fyrr í mánuðinum eftir að hafa leikið síðastliðin þrjú ár í Svíþjóð. Hún varð þar með fyrsta íslenska knattspyrnukonan til þess að semja við hollenskt félag og Berglind fékk góðar upplýsingar frá henni.

„Hún sat nánast við hliðina á mér þegar ég fékk símtalið, svo ég sagði strax við hana að við þyrftum að tala saman. Hún talaði ótrúlega vel um þetta. Aðstæðurnar eru upp á 10 og liðið mjög gott svo ég var strax mjög spennt að prófa þetta,“ sagði Berglind, en hjá PSV mun hún hitta fyrir markvörðinn Carissu Miller sem spilaði með henni í liði Florida State í bandaríska háskólaboltanum.

„Ég sendi á hana að ég væri að koma og hún var ekki alveg að trúa því. Það verður gaman að sameinast þarna á ný,“ sagði Berglind.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir með boltann gegn HK/Víkingi síðasta sumar.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir með boltann gegn HK/Víkingi síðasta sumar. mbl/Arnþór Birkisson

Ekki brennd eftir martröðina á Ítalíu

Berglind Björg er á leið út í atvinnumennsku í annað sinn, en hún fór haustið 2017 til Verona á Ítalíu. Sú dvöl átti eftir að reynast martröð þar sem forráðamenn félagsins sviku flest sem búið var að lofa. Eftir mikið þras fékk Berglind samningi sínum við félagið rift síðasta vor og blómstraði svo með Blikum. Hún segist ekki vera brennd af þessari reynslu sinni úr atvinnumennsku.

„Nei, alls ekki. Eftir þetta á Ítalíu þá vissi ég strax að mig langaði samt aftur út. Þetta var bara eitt lið, bara undantekning og er örugglega ekki svona annars staðar. Þetta var bara mikil óheppni,“ sagði Berglind. En var hún að horfa í kringum sig úti eftir tímabilið í fyrra?

„Draumurinn er alltaf að fara út, en mig langaði að spila heima í sumar enda erum við í Evrópukeppni og svona. Ég var því ekki að stefna sérstaklega á það að fara út, nema það væri á láni fram að móti. Ég verð í Breiðabliki í sumar, mér finnst mjög spennandi að reyna að verja titlana og fara í Evrópukeppni,“ sagði Berglind.

PSV er á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar með 37 stig eftir 14 leiki. Spilaðar eru 24 umferðir og hefst deildin á ný eftir vetrarfrí 1. febrúar. Eins og Berglind segir er hún spennt að fara út að spila til þess að koma svo fersk til leiks með Breiðabliki í vor.

„Verður maður ekki að ná alla vega 20 mörkum núna? Ég skoraði 19 í fyrra, markmiðið verður 20 núna,“ sagði Berglind Björg létt í bragði við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert