Vorum á hælunum

Jón Þór Hauksson, til hægri, ásamt aðstoðarmanni sínum, Ian Jeffs.
Jón Þór Hauksson, til hægri, ásamt aðstoðarmanni sínum, Ian Jeffs. mbl.is/Hari

„Þetta var skellur og liðið olli vonbrigðum í dag,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is eftir 4:1 tap Íslands gegn Skotlandi í Algarve-bikarnum í Parchal í Portúgal í dag.

„Við náðum aldrei neinum takti í okkar leik. Það slitnaði of mikið á milli manna og við náðum engum takti á milli leikmanna inni á vellinum. Við gáfum eftir svæði og fórum í hápressu út um allt með allt of fáum leikmönnum. Skotarnir hafa gæði til að leysa þannig stöðu og þeir refsuðu okkur,“ sagði Jón Þór.

Þetta var þriðji leikur landsliðsins undir stjórn Jóns Þórs. Það hafði betur á móti Skotum í 2:1 vináttuleik á La Manga á Spáni í janúar og gerði markalaust jafntefli gegn Kanada í Algarve-bikarnum í síðustu viku.

„Sara Björk skoraði virkilega gott mark og við náðum góðum kafla í einhverjar 20 mínútur í seinni hálfleik þar sem við náðum að spila sem lið. Það komu nokkrar góðar sóknir í seinni hálfleiknum sem var jákvætt og við tökum með okkur en Skotarnir gerðu endanlega út um leikinn með fjórða markinu.

Það var blaut tuska í andlitið að fá þetta fjórða mark en þegar upp er staðið þá fannst mér liðið orkulaust og kraftlaust í dag og á hælunum og því fór sem fór. Þegar við erum ekki að gera einföldu rétt og vel þá getur svona farið. Nú þurfum við bara að rífa okkur strax upp og við fáum tækifæri eftir tvo daga til að svara þessu,“ sagði Jón Þór.

Það skýrist í kvöld hver verður andstæðingur Íslands á miðvikudaginn en Ísland endaði í neðsta sæti í riðlinum og leikur um 9. eða 11. sæti á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert