Björn úr leik vegna meiðsla

Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Bergmann Sigurðarson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Rostov í Rússlandi, dró sig í morgun út úr landsliðshópi Íslands fyrir leikina gegn Andorra og Frakklandi vegna meiðsla.

Hann glímir við áverka á fæti sem ekki hafa náð að gróa í tæka tíð. Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari landsliðsins staðfesti þetta við mbl.is í Peralada á Spáni rétt í þessu en þar býr íslenska liðið sig undir leikina á föstudag og mánudag.

Viðar Örn Kjartansson var kallaður inn í hópinn í gær og hann kom til móts við liðið seint í gærkvöld og æfir með því í dag. Hann tekur stöðu Björns og þar með eru á ný aðeins tveir hefðbundnir framherjar í 23 manna hópi Íslands.

Íslenska liðið er á æfingu á þessari stundu og allir nema Björn taka þátt í henni af fullum krafti, að því er virðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert