Keflavík fær til sín tvo leikmenn

Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur.
Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Valgarður Gíslason

Keflavík hefur fengið til sín tvo leikmenn til að styrkja leikmannahóp sinn fyrir átök sumarsins í 1. deild karla í knattspyrnu. Annan frá KR og hinn frá Leikni Fáskrúðsfirði. 

Adolf Mtasingwa Bitegeko er lánaður til Keflavíkur frá KR en Bitegeko er frá Tansaníu. Hann lék tvo leiki fyrir KR í úrvalsdeildinni í fyrra og er aðeins tvítugur að aldri. Bitegeko leikur á miðjunni. 

Dagur Ingi Valsson kemur frá Leikni og hann er einnig ungur að árum eða 21 árs gamall. Hann hefur verið í stóru hlutverki á Fáskrúðsfirði síðustu árin. Mörg dæmi eru um að menn að austan hafi spjarað sig hjá Keflavík og má þar nefna Eystein Hauksson, Jóhann Benediktsson, Hjálmar Jónsson og Vilberg Jónasson. 

Þá hefur Keflavík einnig gert nýjan samning við Tómas Óskarsson sem er uppalinn í félaginu og hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands. Fram kemur á heimasíðu Keflavíkur að Tómas sé afabarn Einars Gunnarssonar úr gullaldarliði Keflavíkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert