Þurfum öll að byggja ofan á þetta saman

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson tóku við landsliðinu 8. ágúst …
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson tóku við landsliðinu 8. ágúst í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, kallar eftir ákveðnum sameiningarmætti hjá íslensku þjóðinni til að koma Íslandi á þriðja stórmótið í röð. Hann segir mikla reynslu leikmanna einn af helstu styrkleikum liðsins.

„Við erum bara ánægðir,“ segir Freyr en mbl.is ræddi við hann eftir 2:0-sigurinn á Andorra í gærkvöld, en áður hafði Ísland leikið 15 leiki í röð án sigurs. Þetta var því jafnframt fyrsti sigur Íslands eftir að Erik Hamrén og Freyr tóku við undir lok síðasta sumars:

„Við erum komnir með fjóra leiki í röð án þess að tapa og núna kom fyrsti sigurinn. Fólk getur hætt að tala um það og farið að tala um það að liðið sé að reyna að ná markmiðum sínum, og reynt að búa til þessa „kemistríu“ sem við þurfum á að halda. Við þurfum sjálfir að búa hana til, við ætlumst ekkert til þess að allir séu á bleiku skýi og auðvitað má tala um að við séum ekki búnir að vinna leik. Núna erum við búnir að hreinsa það út, áfram gakk og nú þurfum við öll að byggja upp „momentum“ saman; leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn. Ísland þarf á því að halda til að komast á næsta stórmót,“ sagði Freyr.

Reynslan einn af okkar stóru styrkleikum

Arnór Sigurðsson skar sig allverulega úr í byrjunarliði Íslands að því leyti að hann er sá eini sem ekki hefur leikið yfir 50 A-landsleiki. Arnór er enda bara 19 ára en fékk tækifæri í byrjunarliðinu þrátt fyrir að lítið hafi verið um meiðsli í íslenska hópnum, enda búinn að eiga að mörgu leyti frábæra leiktíð með CSKA Moskvu:

„Arnór var flottur. Hann er ofboðslega duglegur og að sjálfsögðu góður leikmaður. Það komu augnablik í leiknum þar sem hann gerði mjög vel en einnig augnablik þar sem hann þarf að vera hugrakkari. Það er eðlilegt hjá svona strák og við þurfum að leyfa honum að þroskast. Við erum með gríðarlega reynslumikið lið og það er einn af stóru styrkleikunum fyrir Ísland í þessari undankeppni. Við treystum á að það muni hjálpa okkur í keppninni,“ sagði Freyr við mbl.is, ánægður með það hvernig liðið afgreiddi Andorra:

„Mér fannst þetta fyrst og fremst fagmannleg frammistaða. Þeir þrýstu á ákveðna punkta hjá okkur en við stóðumst það. Við náðum upp góðum köflum, skoruðum góð mörk og fengum fín færi [...] engin gul spjöld. Þetta var fagmannleg frammistaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert