Hannes byrjar á rauðu spjaldi og fer í bann

Hannes Þór Halldórsson fellir Þorstein Má Ragnarsson.
Hannes Þór Halldórsson fellir Þorstein Má Ragnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ferill Hannesar Þórs Halldórssonar landsliðsmarkvarðar í knattspyrnu með Valsmönnum hófst ekki eins og best varð á kosið í kvöld því hann var rekinn af velli í fyrsta leik sínum.

Viðureign Vals og Stjörnunnar í Meistarakeppni KSÍ stendur nú yfir á Hlíðarenda og flautað hefur verið til hálfleiks en staðan er 0:0.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks gerði Hannes slæm mistök þegar hann missti boltann frá sér til Þorsteins Más Ragnarssonar Stjörnumanns og braut síðan á honum utan vítateigs. Hannes fékk umsvifalaust rauða spjaldið hjá Vilhjálmi Alvari Þórarinssyni dómara.

Hannes Þór Halldórsson missir boltann til Þorsteins Más Ragnarssonar.
Hannes Þór Halldórsson missir boltann til Þorsteins Más Ragnarssonar. mbl.is/Árni Sæberg


Hannes verður því í leikbanni þegar Valur mætir Víkingi í fyrstu umferð PepsiMax-deildar karla föstudaginn 26. apríl.

Anton Ari Einarsson sem hefur varið mark Vals undanfarin ár er kominn inná sem varamaður, fyrir útispilarann Sigurð Egil Lárusson, og það er því nokkuð ljóst að Anton mun verja mark Vals gegn Víkingi í umræddum leik.

Árni Sæberg ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins var á Hlíðarenda og náði meðfylgjandi myndum af atvikinu.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari sýnir Hannesi rauða spjaldið.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari sýnir Hannesi rauða spjaldið. mbl.is/Árni Sæberg
Hannes Þór Halldórsson gekk til liðs við Val fyrr í …
Hannes Þór Halldórsson gekk til liðs við Val fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina