„Ég sagði aldrei að ég væri hætt“

Málfríður Erna Sigurðardóttir.
Málfríður Erna Sigurðardóttir. mbl.is/Hari

„Ég veit ekki hvað þetta var,“ segir knattspyrnukonan Málfríður Erna Sigurðardóttir við mbl.is, en fréttir sem birtust í dag um að hún væri hætt eru ekki frá henni komnar.

Eins og mbl.is greindi frá eftir frétt fotbolti.net fyrr í dag sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, að Málfríður væri hætt vegna fjölskylduástæðna. Það er ekki satt og hefur Málfríður orðið fyrir nokkrum óþægindum vegna þessa í dag.

„Ég sagði aldrei að ég væri hætt. Ég sagðist bara ætla að taka mér frí, þangað til gleðin kæmi aftur. Það sagði ég við stelpurnar. Stórfjölskyldan hafði svo samband og spurði hvað væri að. Ég er búin að vera það lengi í fótbolta með þrjú börn, svo það héldu allir að það væri einhver veikur eða slíkt,“ segir Málfríður.

Hún hefur ekki rætt við Pétur um málið í dag, en segir að það sé ekkert slæmt þeirra á milli. Það sem henni hafi fundist verst var að því hafi verið útvarpað að hún væri hætt, eitthvað sem hún vill gera á eigin forsendum þegar að því kemur.

„Það fannst mér verst, að þetta birtist bara í einhverri grein án þess að talað væri við leikmanninn. Ég vil að það komi frá mér ef ég hætti, sem ég hef ekki gert. Og að segja vegna fjölskylduaðstæðna er ekki rétt.“

Ástæðuna fyrir því að hún tekur sér frí segir hún einfaldlega vera þá að gleðin hafi minnkað, þó hún viti ekki ástæður þess. Hún segist verða áfram samningsbundin Val, en erfitt sé að segja hvað framtíðin muni bera í skauti sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert