Leikur helgarinnar verður í Árbænum

Skagamenn heimsækja Fylkismenn annað kvöld.
Skagamenn heimsækja Fylkismenn annað kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Miðað við frammistöðu liðanna í fyrstu umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu er viðureign Fylkis og ÍA áhugaverðasti leikur helgarinnar í Pepsi Max-deildinni en liðin mætast í Árbænum annað kvöld.

Fylkir og ÍA eru í tveimur efstu sætum stigatöflunnar eftir eina umferð, hversu mikið mark er takandi á því er annað mál, en bæði lið skoruðu þrjú mörk á fyrsta leikdeginum og koma af miklum krafti inn í þetta Íslandsmót.

Fylkir, með Sam Hewson í aðalhlutverki, vann ÍBV 3:0 í Eyjum og nýliðar Skagamanna lögðu KA 3:1 á Akranesi þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö markanna. Fylkismenn eiga Geoffrey Castillion til góða frá fyrstu umferðinni en hann spilaði gegn Gróttu í bikarnum í vikunni og fróðlegt verður að sjá til hans í appelsínugula búningnum. Ef sigurvegari fæst úr þessum leik gæti hann trónað á toppnum eftir tvær umferðir.

*HK og Breiðablik mætast í dag í fyrsta Kópavogsslag deildarinnar frá árinu 2008. Nú er HK á heimavelli í Kórnum en á árum áður var Kópavogsvöllur heimavöllur beggja liðanna. Blikar byrjuðu mótið á 2:0-sigri í Grindavík en HK á 2:0-tapi í Kaplakrika.

*KA tekur á móti Íslandsmeisturum Vals á morgun og aldrei hefur verið leikið jafn snemma á Akureyrarvelli. Bæði lið hafa talsvert að sanna eftir fyrstu umferð, KA tapaði fyrir ÍA og Valur náði naumlega 3:3-jafntefli gegn Víkingi.

*KR, með Aron Bjarka Jósepsson í banni eftir 1:1-jafnteflið gegn Stjörnunni, fær ÍBV í heimsókn í Vesturbæinn á morgun.

*Grindavík verður aftur á heimavelli og nú gegn Stjörnunni en bæði lið ollu nokkrum vonbrigðum í fyrstu umferðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert