Fyrsta tapið á Hlíðarenda síðan 2016

Skagamenn fagna á Hlíðarenda í kvöld.
Skagamenn fagna á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Valur tapaði sínum fyrsta deildarleik á Hlíðarenda síðan 15. september 2016 þegar liðið mætti ÍA í 3. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í kvöld. Nýliðarnir af Skaganum unnu 2:1 og eru með 7 stig en Valur 1 stig. 

ÍA komst í 2:0 í fyrri hálfleik og komu bæði mörkin eftir hornspyrnur Tryggva Hrafns Haraldssonar frá hægri. Miðvörðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson skallaði í netið á 21. mínútu og Arnar Már Guðjónsson á 45. mínútu. Valsmenn sváfu á verðinum í föstum leikatriðum og lentu fyrir vikið í erfiðri stöðu gegn ÍA sem mætti á Hlíðarenda með sterka fimm manna varnarlínu. 

Valsmenn sköpuðu sér ekki mörg marktækifæri í fyrri hálfleik en voru öllu beittari í síðari hálfleik. Gary Martin minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 57. mínútu sem dæmd var eftir að fyrirgjöf frá Birki Má Sævarssyni hafnaði í hönd Harðar Inga Gunnarssonar. 

Valsmenn vildu fá aðra vítaspyrnu á 82. mínútu en fengu ekki. Andri Adolphsson virtist þá felldur af Einari Loga Einarssyni. 

ÍA hefur unnið KA heima og Val úti og gerði jafntefli við Fylki á útivelli. Valur gerði jafntefli heima við Víking í fyrsta leik en hefur nú tapað tveimur leikjum í röð gegn KA úti og nú ÍA heima. Auk þess tapaði liðið fyrir FH í bikarnum á Hlíðarenda. 

Valur var ósigrað í 24 leikjum í röð á Hlíðarenda á Íslandsmótinu. 

Valur 1:2 ÍA opna loka
90. mín. ÍA fær hornspyrnu Frá hægri
mbl.is

Bloggað um fréttina