Óli gekk á Helgafellið fyrir stórleikinn

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. mbl.is/Sigfús Gunnar

Fimmtu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu lýkur í kvöld með þremur leikjum og þar ber hæst viðureign FH og Íslandsmeistara Vals sem eigast við í Kaplakrika.

Meistararnir hafa farið illa af stað og eru í 9. sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig en Valsmenn unnu sinn fyrsta leik í síðustu viku þegar þeir lögðu Fylkismenn í Árbænum. FH-ingar töpuðu hins vegar sínum fyrsta leik þegar þeir biðu lægri hlut fyrir ÍA á Akranesi og er FH í fjórða sæti deildarinnar með sjö stig.

Mbl.is sló á þráðinn til Ólafs Jóhannessonar þjálfara Valsmanna í morgun en hann var þá nýkominn úr gönguferð á Helgafellið. Ólafur mætir á sinn gamla heimavöll í kvöld en Óli er öllum hnútum kunnugur í Krikanum. Hann þjálfaði og spilaði með FH-liðinu 1988-1990, þjálfaði liðið 1993 og 2003-07. Ólafur gerði FH þrisvar sinnum að Íslandsmeisturum og einu sinni að bikarmeisturum.  Valur hefur landað tveimur Íslandsmeistaratitlun undir stjórn Ólafs og tveimur bikarmeistaratitlum.

„Ég tók daginn snemma og gekk á Helgafellið sem ég geri oft og að sjálfsögðu var ég með hugann við leikinn í kvöld,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.

„Í kvöld mætast tvö sigursæl lið og það er ljóst að það verður mikið undir í þessum leik. Við megum ekki við því að tapa mikið fleiri stigum ef við ætlum ekki að dragast langt aftur úr. Þetta er mjög mikilvægur leikur upp á framhaldið. Mér hefur svo sem ekkert gengið neitt sérstaklega vel í Krikanum með Val en ég er lítið að velta einhverri tölfræði fyrir mér. Við erum nýbúnir að tapa fyrir FH í bikarnum og við gerum okkur alveg grein fyrir því að FH er með frábært og vel mannað lið. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Ólafur.

Lasse Petry og Andri Adolphsson urðu báðir fyrir meiðslum í leiknum gegn Fylki og er óvíst hvort þeir geti tekið þátt í leiknum í kvöld að sögn Ólafs. „Það kemur í ljós síðar í dag. Það eru nokkur spurningarmerki hjá okkur,“ sagði Ólafur.

Á Meistaravöllum tekur KR á móti nýliðum HK. KR er í 7. sætinu með fimm stig en HK er í 9. sæti með 4 stig.

Grindavík og Fylkir eigast við í Grindavík. Grindvíkingar eru í áttunda sætinu með 5 stig en Fylkismenn eru með jafnmörg stig í 6. sætinu.

Leikir kvöldsins hefjast allir klukkan 19.15 og verður fylgst með þeim í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert