Breiðablik lét ekki slá sig út af laginu

Leikmenn Breiðabliks fagna marki gegn KR í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna marki gegn KR í kvöld. mbl.is/Hari

Breiðablik er með fullt hús stiga eftir fimm umferðir í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Blikar unnu sannfærandi 4:2-sigur á KR á heimavelli í kvöld. 

Breiðablik byrjaði af miklum krafti og átti nokkrar fínar sóknir strax á fyrstu mínútunum. Það kom því mjög á óvart þegar Ásdís Karen Halldórsdóttir kom KR yfir á sjöttu mínútu. 

Eftir markið sótti Breiðablik án afláts og sú sókn skilaði loks jöfnunarmarki á 30. mínútu. Kristín Dís Árnadóttir skallaði þá í netið af stuttu færi eftir horn. Eftir það var ljóst í hvað stefndi og tveimur mínútum síðar kom Karólína Lea Vilhjálmsdóttir Breiðabliki yfir með marki af stuttu færi. 

Kristín Dís var svo aftur á ferðinni á 37. mínútu með alveg eins mark; skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu. Breiðablik hefði getað bætt við fleiri mörkum fyrir hlé, en það tókst ekki að var staðan 3:1 í leikhléi. 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir bætti við fjórða marki Breiðabliks á 63. mínútu. Hún kláraði þá af öryggi, ein gegn Birnu Kristjánsdóttur í marki KR, eftir sendingu Öglu Maríu Albertsdóttur.

Á 71. mínútu kom Hlíf Hauksdóttir inn á sem varamaður hjá KR og aðeins örfáum sekúndum síðar minnkaði hún muninn eftir undirbúning Ingunnar Haraldsdóttur. Nær komst KR hins vegar ekki.

Breiðablik 4:2 KR opna loka
90. mín. Venjulegur leiktími liðinn. Væntanlega 3-4 mínútur í uppbóartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert