Sjöunda jafntefli Grindvíkinga

Frá leik Grindavíkur og ÍA sumarið 2017.
Frá leik Grindavíkur og ÍA sumarið 2017. Ljósmynd/Víkurfréttir

Grindvíkingar og Skagamenn skildu jafnir, 1:1, í úrvalsdeild karla í knattspyrnu á Mustad-vellinum í Grindavík í kvöld.

Hörður Ingi Gunnarsson kom ÍA yfir á 26. mínútu en Óscar Conde jafnaði mínútu síðar.

Skagamenn eru áfram í þriðja sætinu með 21 stig, einu stigi á eftir Breiðabliki, en Grindavík sem gerði sitt sjöunda jafntefli á tímabilinu er með 13 stig í níunda sæti.

Eftir rólegar upphafsmínútur náðu Grindvíkingar undirtökum og voru tvisvar nærri því að skora. Elias Tamburini fékk dauðafæri á 15. mínútu þegar hann komst óvænt innfyrir vörn ÍA, einn gegn Árna Snæ Ólafssyni markverði sem varði frá honum.

Þremur mínútum síðar skallaði Sigurjón Rúnarsson í þverslá Skagamanna eftir hornspyrnu Arons Jóhannssonar.

ÍA náði forystunni á 26. mínútu úr fyrstu marktilraun sinni í leiknum. Jón Gísli Eyland átti fasta fyrirgjöf frá hægri, Hörður Ingi Gunnarsson fékk boltann vinstra megin í teignum og skoraði með föstu skoti með jörðinni í hornið fjær, 0:1.

Grindvíkingar voru aðeins rúma mínútu að jafna metin. Alexander Veigar Þórarinsson komst að endamörkum vinstra megin og sendi út í teiginn þar sem Óskar Conde skoraði með viðstöðulausu skoti, 1:1.

Tryggvi Hrafn Haraldsson átti gott skot á mark Grindavíkur á 43. mínútu en Vladan Djogatovic varði vel. Mínútu síðar var Alexander Veigar kominn að vinstra vítateigshorni og átti hörkuskot að marki Skagamanna en hárfínt fram hjá stönginni fjær. Staðan 1:1 í hálfleik.

Tryggvi Hrafn fékk dauðafæri til að koma ÍA yfir á 55. mínútu þegar hann slapp einn inn í vítateig Grindavíkur en Djogatovic varði vel frá honum.

Sigurður Bjartur Hallsson Grindvíkingur fékk ekki síðra færi á 60. mínútu eftir snögga sókn en hann þrumaði rétt yfir Skagamarkið, einn gegn Árna Snæ í markinu.

Sigurður Bjartur var aftur ágengur á 70. mínútu þegar hann átti góðan skalla af markteig en Árni Snær í marki ÍA varði glæsilega.

ÍA sótti meira í seinni hálfleiknum og talsvert á lokakafla leiksins en fékk ekki opin færi. Aron Jóhannsson fékk hins vegar virkilega gott færi á 86. mínútu eftir snögga sókn Grindvíkinga en skaut í varnarmann og í horn.

Grindavík 1:1 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Sjöunda jafntefli Grindvíkinga er niðurstaðan.
mbl.is