Fjölnir og Grótta gefa ekkert eftir

Ingibergur Kort Sigurðsson, Fjölni, með boltann í leiknum við Fram …
Ingibergur Kort Sigurðsson, Fjölni, með boltann í leiknum við Fram í Grafarvogi í kvöld. mbl.is/Arnþór

Það er óbreytt staða á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, en 12. umferðin var leikin í heilu lagi í kvöld. Fjölnismenn eru enn á toppnum, tveimur stigum á eftir Gróttu sem hefur ekki tapað leik síðan í maí.

Fjölnir fékk Fram í heimsókn, sem einnig er að berjast í efri hlutanum. Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði tvívegis og Jóhann Árni Gunnarsson einu sinni í 3:1-sigri Fjölnis, en Helgi Guðjónsson minnkaði muninn fyrir Fram. Fjölnir er með 26 stig á toppnum en Fram með 20 stig í fimmta sæti.

Grótta hefur ekki tapað í síðustu átta leikjum sínum og vann útisigur á Þrótti, 1:0, þar sem Óliver Dagur Thorlacius skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í síðari hálfleik. Grótta er tveimur stigum á eftir Fjölni og einu stigi fyrir ofan Þór sem er í þriðja sætinu, en Þróttur er með 14 stig í áttunda sæti.

Þar sem Fram tapaði komst Víkingur Ólafsvík upp í fjórða sætið með jafn mörg stig eftir 2:0-sigur á Haukum. Miha Vidmar og Sallieu Tarawallie skoruðu mörk Víkings í fyrri hálfleik, en Haukar brenndu einnig af vítaspyrnu fyrir hlé. Víkingur hefur 20 stig en Haukar 11 stig í níunda sætinu.

Þá vann Leiknir R. spennusigur á Aftureldingu á útivelli, 3:2. Sólon Breki Leifsson, Stefán Árni Geirsson og Sævar Atli Magnússon skoruðu mörk Leiknis, en Alexander Aron Davorsson og Andri Freyr Jónasson mörk Aftureldingar, sem missti Arnór Gauta Jónsson af velli með rautt spjald í stöðunni 2:2 þegar 20 mínútur voru eftir. Leiknir er nú í sjötta sætinu með 18 stig en Afturelding í 11. sæti með 10 stig.

Fyrr í kvöld vann Þór sigur á Njarðvík og Magni skellti Keflavík eins og mbl.is hafði áður greint frá.

Markaskorarar fengnir frá urslit.net.

mbl.is