Þór upp í annað sæti eftir dramatík

Þór og Fjölnir eru í tveimur efstu sætunum.
Þór og Fjölnir eru í tveimur efstu sætunum. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Þór er kominn upp í annað sæti 1. deildar karla í fótbolta, Inkasso-deildarinnar, eftir 2:1-útisigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum í dag. Króatinn Dino Gavric skoraði sigurmark Þórsara í uppbótartíma. 

Bjarki Þór Viðarsson kom Þór yfir skömmu fyrir leikhlé en Andri Freyr Jónasson jafnaði metin 20 mínútum fyrir leikslok. Það stefndi í 1:1-jafntefli, allt þar til Gavric skallaði boltann í netið í blálokin. 

Þór er nú með 26 stig, þremur stigum á eftir toppliði Fjölnis. Afturelding er í ellefta og næstneðsta sæti með tíu stig og missti af tækifæri til að fara upp úr fallsæti. 

Leiknir R. gerði góða ferð til Grenivíkur og vann 3:0-útisigur á Magna. Daníel Finns Matthíasson skoraði eina mark fyrri hálfleiks og Vuk Oskar Dimitrijevic bætti við marki á 72. mínútu. Sveinn Óli Birgisson skoraði sjálfsmark á 77. mínútu og innsiglaði 3:0-sigur Leiknis. 

Leiknir er í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig, en Magni á botninum með tíu stig og 20 mörk í mínus í markatölu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert