Dugleg að æfa fyrirgjafir með pabba

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik með Breiðabliki gegn Þór/KA í …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik með Breiðabliki gegn Þór/KA í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta var erfiður leikur að spila og við vorum í miklum vandræðum með þær,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sóknarmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn KR í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbænum í 14. umferð deildarinnar.

„Þær voru mjög öflugar í dag en mér fannst við byrja seinni hálfleikinn mun betur en þann fyrri og þetta datt með okkur undir restina. Planið var að keyra á þær strax í upphafi leiks enda spiluðu þær 120. mínútur í bikarúrslitum á laugardaginn en það gekk ekki alveg eftir. Við fengum góða hálfleiksræðu frá Steina (Þorsteini Halldórssyni) sem var langt frá því að vera hress með frammistöðuna og það kveikti í okkur.“

Karólína ítrekar að Blikar séu ekki að hugsa um úrslit í öðrum leikjum eða liðin í kringum sig en Blikinn ungi skoraði laglegt mark í kvöld. Þremur mínútum áður en hún skoraði fékk hún hins vegar mjög svipað færi sem fór fórgörðum.

„Ég tók of stórt skref í fyrra færinu en ákvað að minnka skrefin í seinna færinu og þá fór boltinn í netið. Við spilum alltaf til sigurs, sama á móti hverjum við erum að spila og erum ekki að hugsa um liðin í kringum okkur. Það þarf svo bara að koma í ljós í haust hvert það mun skila okkur.“

Karólína lék sem framherji hjá FH áður en hún gekk til liðs við Breiðablik en hún hefur spilað sem kantmaður með liðinu í sumar og segist alltaf vera að finna sig betur og betur.

„Ég er búin að vera duglega að æfa fyrirgjafir með pabba og ég er alltaf að finna mig betur og betur á kantinum og ég er bara glöð þegar að ég er í liðinu,“ sagði Karólína í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert