Tek þessu með rosalegri gleði

Daníel Leó Grétarsson, til hægri, ásamt Aroni Elís Þrándarsyni.
Daníel Leó Grétarsson, til hægri, ásamt Aroni Elís Þrándarsyni. Ljósmynd/aafk.no

„Ég fékk bara skilaboðin í gærkvöld. Þau komu mér á óvart en maður tekur þessu með rosalegri gleði,“ sagði Daníel Leó Grétarsson leikmaður norska B-deildarliðsins Aalesund við mbl.is en hann hefur verið kallaður inn í íslenska A-landsliðshópinn í knattspyrnu fyrir leikina gegn Moldóvu og Albaníu í undankeppni EM.

„Að sjálfsögðu hefur alltaf verið markmiðið hjá manni að komast í A-landsliðið hvort sem það er núna eða síðar og ég er auðvitað virkilega stoltur af að vera kominn í hópinn,“ sagði Daníel Leó við mbl.is þar sem hann var staddur á flugvellinum í Osló þar sem bíður eftir flugi heim til Íslands.

Daníel tekur sæti Sverris Inga Ingasonar leikmanns gríska A-deildarliðsins PAOK. Hann hefur ekki verið í A-landsliðshópnum áður en hefur spilað sex leiki með U21 árs landsliðinu og tíu leiki með U-19 ára liðinu.

Daníel Leó, sem er 23 ára gamall, er á sínu fimmta tímabili með Aalesund en hann kom til liðsins frá Grindavík. Aalesund hefur aðeins tapað einum af 18 leikjum sínum í B-deildinni og fátt bendir til annars en að liðið tryggi sér sæti í deild þeirra bestu en það er með 11 stiga forskot í toppsætinu þegar níu umferðum er ólokið. Fjórir Íslendingar leika með liðinu en auk Daníels eru það Aron Elís Þrándarson, Hólmbert Aron Friðjónsson og Davíð Kristján Ólafsson.

„Ég var mikið frá vegna meiðsla á síðasta tímabili en ég hef spilað alla leikina í deildinni á þessu tímabili. Mér hefur gengið vel sem og liðinu öllu. Það þarf mikið til þess að við klúðrum þessu. Í fyrra vorum við komnir með gott forskot en misstum það niður og fórum ekki upp svo við ætlum ekki að fagna neinu fyrr en úrvalsdeildarsætið er orðið tryggt,“ sagði Daníel, sem spilar í stöðu miðvarðar og hefur gert það undanfarin ár. Aalesund er komið í átta liða úrslit í bikarkeppninni eftir að hafa slegið út risaliðin Molde og Rosenborg og í átta liða úrslitunum mætir Aalesund Viking Stavanger sem Samúel Kári Friðjónsson leikur með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert