Grindavík fékk líflínu á Akranesi

Skagamenn geta enn náð Evrópusæti ef þeir vinna leikinn í …
Skagamenn geta enn náð Evrópusæti ef þeir vinna leikinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindvíkingar biðu fram á 85. mínútu að jafna og eiga þar með möguleika á að halda sæti sínu í efstu deild þegar þeir gerðu 1:1 jafntefli við Skagamenn á Akranesi í dag er leikið var í 20. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu.

Fátt markvert gerðist framan af, eins og menn ætluðu alls ekki að gera mistök svo það væri þá betra að gera ekki neitt.    Síðan kom markið, aukaspyrna rétt utan við vítateigsbogann og Stefán Teitur Þórðarson skaut yfir háan varnarvegg Grindvíkinga alveg upp í hægra hornið.  Flott mark.    Eitthvað tóku gestirnir frá Grindavík við sér með ákafari sóknarleik en Skagamenn voru komnir á bragðið, sem sást best á snörpum sóknum. 

Síðari hálfleikur var aðeins skárri með meiri ákefð í sóknum en lítið um færi.  Grindvíkingar reyndu af meiri krafti að sækja en það vantaði að vanda sóknirnar.  Skagamenn fengu fyrir vikið nokkrar skyndisóknir jafnvel einum fleiri en tókst ekki að gera sér mat úr því.  Ekki fyrr en á 85. mínútu þegar Josep Zeba skoraði með skalla af stuttu færi, mættur aleinn við stöngina.

Með jafnteflinu fóru Skagamenn upp í 6. sætið með 26 stig og eiga enn möguleika á sæti í Evrópukeppninni. Grindvíkingar eiga enn möguleika á að halda sér í deildinni en til þess þurfa þeir að vinna Val og FH í tveimur síðustu umferðunum og treysta á að KA, Fylkir, Valur eða Víkingur misstígi sig og tapi þeim leikjum sem eftir eru. ÍA og HK eru endanlega laus úr fallhættu með þessum úrslitum.

ÍA 1:1 Grindavík opna loka
90. mín. Gonzalo Zamorano (ÍA) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert