Ég vil spila hér áfram

Morten Beck Guldsmed fagnar einu af mörkum sínum gegn ÍBV …
Morten Beck Guldsmed fagnar einu af mörkum sínum gegn ÍBV í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danski framherjinn Morten Beck Guldsmed skoraði þrennu í öðrum deildarleik sínum í röð með FH þegar liðið lagði ÍBV að velli 6:4 í 20. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

Guldsmed hefur þar með skoraði sjö mörk í þeim sex leikjum sem hann hefur spilað með FH í deildinni frá því hann kom til liðsins um mitt mót.

„Ég er virkilega ánægður með að hafa skorað þrennu í öðrum leik í röð í deildinni. Ég er með gott sjálfstraust og það hjálpar manni. Þetta var virkilega furðulegur leikur. Í stöðunni 6:1 misstum við einbeitingu, gerðum mistök og fengum á okkur þrjú mörk sem var ekki gott og við þurfum að fara yfir það hvað gerðist. En aðalmálið er að við unnum leikinn og við gleðjumst yfir því,“ sagði Guldsmed við mbl.is en með sigrinum er FH komið í afar góða stöðu að tryggja sér Evrópusæti.

Guldsmed samdi við FH út tímabilið en spurður hvort komi til greina að hann verði áfram með FH-ingum sagði Daninn;

„Við höfum rætt um það setjast niður og taka stöðuna. Ég vil spila hér áfram. Ég kann vel við félagið, fólkið í kringum það og leikmennina svo við sjáum til hvað gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert