Heillaóskum rignir yfir markvörð meistaraliðsins

Beitir Ólafsson býr sig undir að handsama boltann.
Beitir Ólafsson býr sig undir að handsama boltann. mbl.is/Árni Sæberg

Beitir Ólafsson er ekki þekktasta nafnið í íslenskri knattspyrnu. Og hvað þá árið 2017 þegar KR ákvað að fá hann til liðs við félagið.

Nú stendur Beitir uppi sem Íslandsmeistari með KR og varði mark liðsins af stakri prýði enda hefur KR haldið hreinu í átta leikjum á Íslandsmótinu af tuttugu. Morgunblaðið hafði samband við Beiti og spurði hvernig upplifun það væri að verða Íslandsmeistari?

„Þetta er virkilega þægileg upplifun. Ég dreg ekkert úr því. Auk þess er fínt fyrir okkur að vera búnir að klára dæmið og þurfa ekki að stressa okkur á þessu í lokaleikjunum. Á þessum árstíma fer veðrið líka að setja svip sinn á leikina og bitnar á spilamennskunni. Líðanin er góð og komið hefur mér virkilega á óvart hversu margir samgleðjast manni í þesssari stöðu. Ég hef fengið mörg skilaboð en einnig samgleðst fólk manni á vinnustaðnum eða bara úti í búð,“ sagði Beitir sem býr þó ekki í Vesturbæ Reykjavíkur heldur í Kópavoginum en það breytir engu. „Hér hikar enginn við að óska mér til hamingju sem er yndislegt.“

Markvörðurinn segir KR-inga hafa verið hárrétt stillta þegar Íslandsmótið hófst og velgengni hafi því ekki komið honum á óvart. „Mér fannst við vera á rosalega góðri vegferð í vetur og unnum það sem hægt var að vinna í vetur og vor. Við fórum því fullir sjálfstrausts inn í sumarið og höfðum fulla trú á því sem við vorum að gera.

Andrúmsloftið var þannig að maður fann fyrir þvílíkum meðbyr og andinn í hópnum geggjaður. Við vorum allir á sömu blaðsíðu. Maður hafði ekki trú á því að við gætum tapað eins og sýndi sig þegar við lentum 0:2 undir á móti Val en unnum það upp. Hugarfarið var þannig að ekkert gæti brotið okkur niður og við gætum alltaf komist aftur inn í leikina.“

Sjá allt viðtalið við Beiti á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert