Uppskárum virkilega mikilvægan og sanngjarnan sigur

Hörður Ingi Gunnarsson með boltann í leiknum gegn Írum í …
Hörður Ingi Gunnarsson með boltann í leiknum gegn Írum í dag en hann átti virkilegan góðan leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hörður Ingi Gunnarsson, leikmaður ÍA, átti skínandi góðan leik í vinstri bakvarðarstöðunni með íslenska U21 ára landsliðinu í knattspyrnu þegar það vann 1:0 sigur gegn Írum í undankeppni EM á Víkingsvellinum í dag.

„Það kom ekkert annað til greina en að vinna þennan leik og svara fyrir þetta stóra tap á móti Svíunum. Við ætluðum að sýna að við ættum töluvert meira inni og við uppskárum virkilega mikilvægan og sanngjarnan sigur,“ sagði Hörður Ingi í samtali við mbl.is eftir leikinn en hann kom inn í byrjunarliðið frá tapleiknum gegn Svíum og nýtti tækifærið í botn. Hörður var sterkur í vörninni og var duglegur að taka þátt í sóknum íslenska liðsins.

„Við lögðum leikinn mjög vel upp. Við vissum alveg hvað við ætluðum að gera. Þegar við erum hungraðir í gera hlutina rétt þá verður uppskeran góð og hún var það svo sannarlega í þessum leik. Við erum komnir með níu stig eftir fjóra leiki og ég held að allir séu sáttir með það og það er hægt að byggja ofan á þetta,“ sagði Hörður Ingi en síðasti leikur U21 árs landsliðsins í undankeppninni á þessu ári verður gegn Ítölum ytra þann 16. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert