Blikar töpuðu í markaleik í Svíþjóð

Thomas Mikkelsen og Viktor Karl Einarsson sem eru þriðji og …
Thomas Mikkelsen og Viktor Karl Einarsson sem eru þriðji og annar frá hægri á myndinni, skoruðu fyrir Blika í Norrköping. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sænska úrvalsdeildarliðið Norrköping, með tvo Íslendinga innanborðs, sigraði Breiðablik 4:2 í æfingaleik karlaliða félaganna í fótbolta sem fram fór á heimavelli Norrköping, Östgötaporten, í dag.

Svíarnir voru komnir í 3:0 um miðjan fyrri hálfleik en Thomas Mikkelsen minnkaði muninn fyrir hlé og og Viktor Karl Einarsson bætti við marki á 55. mínútu, 3:2. Svíarnir skoruðu fjórða markið fimm mínútum síðar og þar við sat.

Hinn sextán ára gamli Skagamaður Ísak Bergmann Jóhannesson lék allan leikinn á miðjunni hjá Norrköping og skoraði fyrsta mark leiksins með skoti af löngu færi í tómt mark Blika. Alfons Sampsted, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks, lék síðustu fimmtán mínúturnar. Kristinn Steindórsson lék sinn fyrsta leik með Breiðabliki í níu ár en hann samdi við félagið á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert