Mætir tvíburabróður sínum í sumar

Indriði Áki Þorláksson í leik með Fram gegn HK fyrir …
Indriði Áki Þorláksson í leik með Fram gegn HK fyrir nokkrum árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinnn Indriði Áki Þorláksson er genginn til liðs við 1. deildarlið Víkings í Ólafsvík og þar með getur hann mætt tvíburabróður sínum á vellinum í sumar.

Indriði, sem kom sextán ára gamall inn í lið Vals sumarið 2012, hefur komið víða við og spilað með Leikni í Reykjavík, Fram, Keflavík og Haukum á undanförnum árum en síðasta sumar lék hann nokkra leiki með Akranesliðinu Kára í 2. deild. Hann á að baki ríflega 100 leiki í deildakeppninni og þar af 33 í úrvalsdeildinni.

Tvíburabróðir hans Alexander Már Þorláksson kom til liðs við 1. deildarlið Fram í vetur en hann varð markahæsti leikmaður deildakeppninnar á síðasta tímabili með 28 mörk fyrir lið KF í 3. deildinni. Alexander hefur skorað 77 mörk í neðri deildunum undanfarin ár og hefur gert eitt mark í sextán leikjum með ÍA og Fram í úrvalsdeildinni.

Þeir Indriði og Alexander eru synir Þorláks Árnasonar knattspyrnuþjálfara sem nú er yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong.

mbl.is