Ísland fer niður um eitt sæti

Ísland lék við Úkraínu, Skotland og Norður-Írland fyrr í þessum …
Ísland lék við Úkraínu, Skotland og Norður-Írland fyrr í þessum mánuði. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sígur niður um eitt sæti á heimslista FIFA sem gefinn var út í dag í fyrsta skipti á árinu 2020.

Ísland var í 18. sæti listans þegar hann var síðast gefinn út, í desember 2019, en er núna í nítjánda sætinu. Það er Suður-Kórea sem fer upp fyrir Ísland og í 18. sætið, og fer reyndar líka upp fyrir Sviss sem sígur niður í það 20. í staðinn.

Íslenska liðið hefur leikið þrjá leiki á þessu ári, alla á alþjóðlegu móti á Spáni í byrjun mars. Þar vann það Norður-Írland 1:0 og Úkraínu 1:0 en tapaði 0:1 gegn Skotlandi.

Ein breyting er meðal liðanna í efstu sætunum. Þar eru Bandaríkin og Þýskaland í tveimur þeim efstu sem fyrr en Frakkland fer upp fyrir Holland og í þriðja sætið.

Svíþjóð, England og Ástralía koma þar á eftir en Brasilía kemst að hlið Kanada í 8.-9. sætinu. Þá fer Norður-Kórea upp fyrir Japan og í tíunda sætið. Þar á eftir koma Noregur, Spánn, Ítalía, Kína, Danmörk, Belgía, og svo Suður-Kórea og Ísland númer 18 og 19.

Skotar, sem unnu alla þrjá leiki sína á mótinu á Spáni, fara upp um eitt sæti og eru núna númer 21 á listanum en skoska liðið fór upp fyrir Austurríki.

Ungverjaland, næsti mótherji Íslands í undankeppni EM, fer upp um tvö sæti, upp fyrir Rúmeníu og Myanmar, og er í 43. sæti, en Slóvakía, sem Ísland á að mæta þar á eftir, er áfram í 47. sæti.

mbl.is