Enginn á förum frá Akranesi

Hörður Ingi Gunnarsson hefur verið reglulega orðaður við uppeldisfélag sitt …
Hörður Ingi Gunnarsson hefur verið reglulega orðaður við uppeldisfélag sitt FH í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hörður Ingi Gunnarsson, bakvörður knattspyrnuliðs ÍA, er ekki á förum frá félaginu en þetta staðfesti Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, í samtali við mbl.is í morgun. Hörður Ingi hefur verið reglulega orðaður við uppeldisfélag sitt FH í vetur en Geir ítrekar að það sé enginn á förum frá Akranesi.

„Það eru engar viðræður um leikmannakaup í gangi við önnur félög,“ sagði Geir í samtali við mbl.is. „Ég hef heyrt þessar sögur um FH og Hörð Inga og hún var í gangi áður en ég tók við framkvæmdastjórastarfinu upp á Skaga. Ég get hins vegar staðfest það að það er enginn leikmaður á förum frá Akranesi.

Það er algjört frost á leikmannamarkaðnum og ég á von á því að það verði þannig næstu vikur og mánuði,“ bætti Geir við í samtali við mbl.is. ÍA hefur leik í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, 14. júní næstkomandi þegar liðið fær KA í heimsókn á Akranes. Skagamenn heimsækja svo FH í Kaplakrika í annarri umferð deildarinnar 20. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert