Ljómandi fínt að vera komnir af stað með 3 stig

Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, skilaði þremur stigum í hús í frumraun sinni í efstu deild sem þjálfari þegar Breiðablik vann Gróttu 3:0 í 1. umferð Pepsí Max-deildarinnar í kvöld. 

„Já já ég er bara þokkalega sáttur við frammistöðuna,“ sagði Óskar þegar mbl.is tók hann tali á Kópavogsvellinum í kvöld. 

Biðin eftir Íslandsmótinu var enn lengri en venjulega. Væntingar eru gerðar til Blika eftir að hafa hafnað í 2. sæti síðustu tvö árin. Er ekki ágætt að vera komnir áfallalaust af stað?

„Jú, ég held að það sé ljómandi fínt. Ég held einmitt að þessi ofboðslega langi aðdragandi hafi valdið mikilli spennu. Það sést á leikjunum í þessari umferð og mikil eftirvænting hefur byggst upp. Það er ofboðslega gott að vera byrjaðir.“

Gísli Eyjólfsson sýndi oft fína takta á miðjunni í kvöld.
Gísli Eyjólfsson sýndi oft fína takta á miðjunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Væntanlega er enn meiri áskorun að stilla spennuna rétt hjá leikmönnum undir þeim kringumstæðum? 

„Sennilega er það raunin og kannski aðeins meiri en maður gerir sér grein fyrir. Þegar öllu er á botninn hvolft þá unnum við 3:0 og hefðum getað skorað fleiri mörk. Kannski er smá frekja að fara fram á mikið meira.“

Eins og þegar þjálfaraskipti verða þá hefur Óskar komið með sínar áherslur inn í lið Breiðabliks. Telur hann að það muni taka tíma að stilla strengina? 

„Ég held að við verðum eldsnöggir að því. Í kvöld voru margar góðar sóknir. Í minni eigingirni og frekju vill maður að allt sé rétt gert en ég held einhvern veginn að takturinn sé þarna. Fyrir okkur snýst þetta um halda spennustiginu niðri og finna einhverja innri ró. Þá verðum við mjög góðir,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson enn fremur. 

Brynjólfur Andersen Willumsson í góðu færi í kvöld.
Brynjólfur Andersen Willumsson í góðu færi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert