Harkaleg þreföld refsing

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK
Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK mbl.is/Hari

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK sagði eftir skellinn gegn Valsmönnum í Kórnum í kvöld, 0:4, í úrvalsdeild karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni, að harkaleg þreföld refsing hefði endanlega drepið leikinn áður en fyrri hálfleikurinn var úti.

Brynjar tók undir að hjá HK-ingum hefði hálfpartinn allt gengið á afturfótunum í fyrri hálfleiknum en þeir lentu 2:0 undir eftir rúmlega 20 mínútna leik.

„Já, að mörgu leyti má segja það. Það var ekki gott að þurfa að gera breytingu á liðinu eftir síðustu æfingu í gær, þegar í ljós kom að Jón Arnar Barðdal þyrfti að fara í sóttkví. Það var kannski ekki stærsta atriðið en það riðlaði þessu aðeins.

Svo vorum við of passífir í fyrri hálfleiknum, of aftarlega á vellinum, og þegar við fengum tækifæri til að sækja nýttum við þau ekki nógu vel, vorum of staðir í þeim stöðum,“ sagði Brynjar við mbl.is.

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK var rekinn af velli eftir 36 mínútna leik og dæmd á hann vítaspyrna þar sem Valsmenn komust í 3:0.

„Frammistaðan í fyrri hálfleik var ekkert sérstök, Leifur er rekinn út af, sem mér finnst strangur dómur. Leikmaðurinn sem komst inn fyrir hann átti eftir að gera ansi mikið eftir að hann fékk boltann. Dómarinn metur eflaust að þetta hafi verið upplagt marktækifæri en mér finnst að færi geti aldrei verið upplagt fyrr en þú ert kominn með stjórn á boltanum. Þetta er þreföld refsing, rautt spjald, víti og mark, og drap í raun leikinn á þessum tímapunkti,“ sagði Brynjar.

Lið hans var því 3:0 undir í hálfleik og manni færri en þjálfarinn sagði að hann væri sáttur við seinni hálfleikinn hjá HK-ingum.

„Í seinni hálfleik hefðum við getað lagst til baka, farið á teiginn og passað að fá ekki á okkur fleiri mörk. En við þurftum að breyta upplegginu, náðum kannski ekki að setja Valsmenn undir pressu en gátum allavega klukkað þá aðeins og áttum fleiri upphlaup, komum okkur í mjög góðar stöður fjórum til fimm sinnum þar sem bara boltinn stoppaði á fyrsta manni. Uppleggið var að fara út í seinni hálfleikinn og reyna, ekki bara gefast upp. Mér fannst við gera það og er mjög ánægður með hugarfarið í seinni hálfleik.

Auðvitað komu upp stöður þar sem Valsmenn gátu skorað fleiri mörk en þeir gerðu það ekki, nema þetta eina þarna undir lokin. Við settum inn á tvo sextán ára leikmenn sem eru reynslunni ríkari eftir daginn.“

Brynjar sagði að það eina í stöðunni væri að horfa til næsta leiks. „Það er sama hvort þú sigrar eða tapar, það hefur ekkert að segja með það sem gerist í næsta leik,“ sagði Brynjar en næsti leikur HK er gegn Gróttu á útivelli næsta laugardag.

mbl.is