Valsmenn með tólf mörk á útivöllum

Kristinn Freyr Sigurðsson með boltann og Atli Hrafn Andrason á …
Kristinn Freyr Sigurðsson með boltann og Atli Hrafn Andrason á eftir honum í leik Vals og Víkings í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn halda áfram að salla mörkum á andstæðinga sína á útivöllum. Þeir unnu vængbrotna Víkinga 5:1 í Fossvoginum í gærkvöld og hafa í þremur útileikjum í deildinni í sumar skorað 12 mörk gegn einu og fengið þar öll sín níu stig. Byrjuðu á þremur mörkum gegn Gróttu, þá komu fjögur mörk gegn HK og nú fimm gegn Víkingi.

Á sama tíma hafa Heimir Guðjónsson og hans menn tapað báðum heimaleikjum sínum með einu marki gegn fimm.

„Sóknarleikur Valsmanna tikkaði mjög vel í kvöld með Kristin Frey Sigurðsson fremstan í flokki. Valsmenn eru einfaldlega allt annað lið þegar hann er inni á vellinum og það er lykilatriði fyrir Valsmenn að hann haldist heill og sé í standi ef þeir ætla sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

Víkingar voru ekki bara án sinna þriggja bestu varnarmanna heldur voru þeir að spila án sinna mikilvægustu leikmanna líka. Það sást mjög greinilega á leik Víkingsliðsins í kvöld hversu leiðtogalausir þeir voru þegar mest á reyndi. Óttar Magnús Karlsson er frábær leikmaður en hann ber þetta lið ekki á herðum sér,“ skrifaði Bjarni Helgason m.a. um leikinn á mbl.is.

*Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, miðverðir Víkings, voru allir í leikbanni.

*Varnarmaðurinn Tómas Guðmundsson kom inn í byrjunarlið Víkings og spilaði sinn fyrsta leik á Íslandsmóti í rúm fjögur ár, eða síðan í júní árið 2016.

*Valgeir Lunddal Friðriksson, hinn 18 ára gamli vinstri bakvörður Vals, skoraði sín fyrstu mörk í efstu deild þegar hann gerði fyrsta og þriðja mark Valsmanna, í sínum sautjánda leik í deildinni.

*Patrick Pedersen skoraði sitt 60. og 61. mark í deildinni þegar hann gerði annað og fjórða mark Vals. Hann er fjórði Valsmaðurinn sem skorar sextíu mörk í efstu deild og fór með seinna markinu upp fyrir Guðmund Þorbjörnsson sem gerði 60 mörk á sínum tíma. Ingi Björn Albertsson með 109 og Hermann Gunnarsson með 81 eru markahæstir Valsara.

Umfjöllunina um Íslandsmótið og M-gjöfina má sjá í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert