Við verðskulduðum þetta sigurmark

Madison Gonzalez í baráttu við Gabrielu Guillén á Þórsvellinum í …
Madison Gonzalez í baráttu við Gabrielu Guillén á Þórsvellinum í kvöld en Gonzalez skoraði sigurmark FH undir lokin. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Árni Freyr Guðnason, aðstoðarþjálfari FH var að vonum ánægður með 1:0 sigur FH á Þór/KA Í 6.umferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum á Akureyri í kvöld.

Hann stýrði liðinu í fjarveru Guðna Eiríkssonar sem er í leikbanni eftir brottrekstur í leik gegn Þrótti á dögunum.

„Ég er gríðarlega ánægður með að hafa landað þessu í hörkuleik sem var 50/50. Báðir hálfleikarnir voru mjög kaflaskiptir, við vorum betri í seinni helmingnum af þeim báðum fannst mér. Það er sætt að ná að vinna og halda hreinu.“

Eins og Árni nefnir þá var leikurinn kaflaskiptur. Leikmenn FH spiluðu vel eftir því sem leið á í fyrri hálfleik og seinni hálfleik.

„Mér fannst það vera sérstaklega í seinni hálfleik. Þá vorum við í meira veseni fyrri hlutann. Fyrri hálfleikurinn var bardagi. Við komum vel inn í þetta og mér fannst við bara betri seinni helminginn í seinni hálfleiknum og verðskulduðum að skora þetta sigurmark.“

Eftir fjögur töp í röð í deildinni náðu FH-ingar í sín fyrstu stig í sumar. Árni segir það vera létti að vera kominn á blað í deildinni.

„Þetta er léttir, ég hafði engar áhyggjur af því að við myndum ekki skora einhver mörk. Við erum með frábæra framherja og góða miðjumenn til þess að búa til færi en þetta hefur aðeins setið á leikmönnum og okkur. Bikarsigurinn á föstudaginn hjálpaði okkur líka mikið. Það gaf hópnum sjálfstraust að vinna þann leik.“

mbl.is