Engir áhorfendur þegar Ísland mætir Englandi

Íslenska liðið fagnar marki gegn Englandi á EM.
Íslenska liðið fagnar marki gegn Englandi á EM. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur ákveðið að engir áhorfendur verði leyfðir á landsleikjum á vegum sambandsins í september vegna kórónuveirunnar. Norska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í dag. 

Íslenska karlalandsliðið leikur tvo leiki í mánuðinum í Þjóðadeildinni; á heimavelli gegn Englandi og á útivelli gegn Belgíu.

Voru margir orðnir ansi spenntir að sjá íslenska liðið mæta ensku stórstjörnunum á heimavelli 5. september, en ljóst er að Laugardalsvöllur verður svo gott sem tómur. Ísland mætir Belgíu á útivelli þremur dögum síðar. 

Verður leikur Íslands og Englands fyrsti keppnisleikur A-landsliða þjóðanna í karlaflokki hér á landi og fyrsti leikur liðanna síðan þau mættust í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi 2016 í Nice þar sem Ísland fór með frækinn 2:1-sigur. 

Íslenska kvennalandsliðið leikur sömuleiðis tvo leiki í september. Eru þeir báðir í undankeppni EM og á heimavelli. Lettland heimsækir Laugardalsvöll 17. september og fimm dögum síðar mætast Ísland og Svíþjóð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert