KA bjargaði stigi í Garðabænum

Stjarnan og KA eigast við í kvöld.
Stjarnan og KA eigast við í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA-menn björguðu stigi á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar liðið mætti Stjörnunni á Samsungvellinum í Garðabæ í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu. 

Stjarnan var 1-0 yfir í hálfleik, en KA menn jöfnuðu metin úr vítaspyrnu á 90. mínútu. 

Leikurinn átti að fara fram í þriðju umferð deildarinnar en var frestað þar sem leikmenn Stjörnunnar voru í sóttkví. 

Leikurinn fór fremur rólega af stað og voru heimamenn ef til vill aðeins sterkari fyrsta hálftímann án þess þó að ná að ógna marki KA-manna að nokkurri alvöru. 

Á 40. mínútu fékk Halldór Orri Björnsson svo rautt spjald eftir brot á Almarri Ormarssyni. Varnarmenn Stjörnunnar misstu boltann yfir fyrir sig og Almarr komst einn í gegn, Halldór Orri fór þá aftan í hann og uppskar rautt spjald fyrir. 

Á þriðju mínútu uppbótatíma í fyrri hálfleik dró svo til tíðinda þegar Emil Atlason kom Stjörnumönnum yfir. Hilmar Árni Halldórsson fékk boltann vinstra megin á vellinum og lék vel á Andra Fannar Stefánsson í vörn KA-manna. Hilmar kom með fyrirgjöf inn á teiginn og KA mönnum tókst ekki að koma boltanum í burtu. Emil nýtti tækifærið og setti boltann í þaknetið. 

Það færðist svo aukið líf yfir Akureyringana í síðari hálfleik og eftir um 70 mínútur var ljóst að Stjörnumenn væru orðnir þreyttir, enda manni færri. Leikurinn var opin og bæði liðin héldu boltanum til skiptist og reyndu að sækja hratt. 

KA-menn voru líklegri til að jafna síðasta korterið en Stjörnumenn að bæta við. Stjarnan gerði varnarsinnaða skiptingu á 84 mínútu þegar Elís Rafn Björnsson kom inn á fyrir Kristófer Konráðsson sem átti hinn fínasta fyrsta byrjunarliðsleik. 

Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma fengu KA-menn svo víti. Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk boltann inn á teiginn og var á leiðinni út úr teig Stjörnunnar þegar Brynjar Gauti Guðjónsson fór aftan í Hallgrím. Þetta var harður dómur hjá Erlendi Eiríkssýni dómara og ekki víti að mínu mati. Guðmundur Steinn Hafsteinsson fór á punktinn og skoraði örugglega. 

Heilt yfir verður ekki annað sagt en að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit. KA-menn nýttu sér það að Stjörnumenn væru manni færri og pressuðu hátt uppi. Stjörnumenn hafa oft átt betri dag og KA-menn mættu af krafti í leikinn. 

Liðin mætast aftur í næsta leik á sunnudaginn á Akureyri. Stjörnumenn eru nú í öðru sæti deildarinnar með 20 stig eftir 10 leiki, 5 stigum á eftir Valsmönnum sem unnu glæsilegan sigur á Íslandsmeisturum KR fyrr í kvöld. KA-menn eru í 10. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 11 leiki. 

Stjarnan 1:1 KA opna loka
90. mín. Mikkel Qvist (KA) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert