Brugðust vel við rauða spjaldinu

Stefán Árni Geirsson og Orri Hrafn Kjartansson, sem skoraði fyrra …
Stefán Árni Geirsson og Orri Hrafn Kjartansson, sem skoraði fyrra mark Fylkis, í baráttu á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Íris

„Jafntefli hefði kannski verið sanngjörn niðurstaða, en við fögnum sigrinum,“ segir Ólafur Ingi Stígsson, þjálfari Fylkismanna, en hann var að vonum ánægður með 2:1 útisigur sinna manna á Íslandsmeisturum KR í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag. Hann segir lið sitt hafa brugðist vel við eftir að Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, var rekinn út af snemma í seinni hálfleik.

„Róðurinn varð þá vissulega þungur, við erum að spila á móti frábæru KR-liði á þeirra heimavelli, þannig að það er ekkert asnalegt að þurfa að falla aðeins til baka við það, en mér fannst mínir menn bregðast vel við,“ segir Ólafur Ingi og bætir við að þó að KR-ingar hafi fengið sín færi hafi vörn Fylkismanna að mestu staðist áhlaupið. Þá voru skyndisóknir Fylkismanna skæðar.

Ragnar Bragi Sveinsson var miður sín eftir að hafa verið …
Ragnar Bragi Sveinsson var miður sín eftir að hafa verið rekinn af velli á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Íris

Ólafur Ingi segir að hann hafi ekki séð atvikið í lokin, þegar Fylkismenn fengu dæmda vítaspyrnu og Beitir Ólafsson, markvörður KR-inga var rekinn út af. „Ég var að reyna að bregðast við í vörninni því ég hélt að við værum að fara að fá á okkur skyndisókn í andlitið,“ segir Ólafur Ingi.

Kórónuveirufaraldurinn og veðrið settu líklega sinn svip á áhorfendafjöldann og oft hafa fleiri séð leiki KR og Fylkis á KR-vellinum. Ólafur Ingi segir þó að stuðningsmenn Fylkis eigi skilið mikið hrós fyrir frammistöðu sína í dag. „Það heyrðist gríðarlega vel í þeim og þeir studdu okkur gríðarlega vel og við erum þeim þakklátir fyrir það.“

Orri Hrafn Kjartansson opnaði í dag markareikning sinn fyrir Fylkismenn í efstu deild með laglegu marki í fyrri hálfleik. Ólafur Ingi var mjög ánægður með framlag hans í leiknum. „Það er ekki annað hægt en að hrósa honum fyrir frammistöðu, hann spilar fremstur á miðjunni í fyrri hálfleik, skorar gott mark, við lendum manni færri og hann fer í hægri bakvörð og leysir það gríðarlega vel,“ segir Ólafur. „Þetta er strákur sem á mikla framtíð fyrir sér og vonandi verður hann hjá okkur eitthvað, en maður er alltaf hræddur við að svona strákar fari út, en ég er gríðarlega ánægður með hann.“

Ólafur Ingi Stígsson, þjálfari Fylkismanna.
Ólafur Ingi Stígsson, þjálfari Fylkismanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki sett sér markmið um Evrópusæti

Með sigrinum koma Fylkismenn sér í góða stöðu í baráttu um Evrópusæti. Ólafur Ingi segir að Fylkismenn hafi lítið verið að spá í því. „Við höfum bara farið í hvern leik og reynt að gera okkar besta. Við erum að þróa leik liðsins og viljum ná meiri stöðugleika og það hefur gengið vel í sumar. Við höfum hins vegar ekki sett okkur markmið um Evrópu eða þannig, heldur er það bara einn leikur í einu og svo sjáum við hvar við endum.“

Næstu leikir Fylkis eru á móti Breiðablik og svo Valsmönnum, og segir Ólafur Ingi ljóst að þeir leikir verði gríðarlega erfiðir. „En það er bara áskorun sem við tökumst á við og við förum óhræddir í þá leiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert