Frábært að hafa Birki þótt hann segi aldrei neitt

Ari Freyr Skúlason sækir að Leandro Trossard í kvöld.
Ari Freyr Skúlason sækir að Leandro Trossard í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta var frábært, ógeðslega gaman. Það er búið að gerast mikið á síðustu dögum og þetta var ótrúlega gaman þrátt fyrir tap,“ sagði Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður í knattspyrnu í samtali við blaðamenn eftir 1:2-tap fyrir Belgíu í Þjóðadeild UEFA í kvöld. 

Bjuggust flestir við örruggum sigri Belga í kvöld, en leikurinn var jafn og spennandi. Ari segist ekki hafa hræðst stórt tap fyrir leik, heldur hafði hann meiri áhyggjur af þeim leikmönnum sem voru að spila þriðja landsleikinn á skömmum tíma. 

„Við vorum ekki hræddir við slátrun en ég var aðallega hræddur um þá leikmenn sem voru búnir að spila tvo leiki á skömmum tíma og áttu svo að spila þriðja leikinn,“ sagði Ari. 

Ari og Birkir Már Sævarsson léku saman hjá Val, áður en þeir héldu út í atvinnumennsku. Birkir skoraði mark Íslands í dag í sínum fyrsta keppnisleik með landsliðinu í rúmt eitt og hálft ár. Ari hrósaði Birki í hástert. 

„Hann er æðislegur og hreinlega ótrúlegur. Hann kemur inn í þetta núna aftur eftir hlé og sýnir að hann á erindi í þetta landslið. Þetta er gæðablóð og það er frábært að fá hann aftur þótt hann segi aldrei neitt. Hann vinnur alltaf 100%,“ sagði Ari. 

mbl.is