Ósanngjörn gagnrýni að mati Kára

Kári í leiknum gegn Ungverjum á dögunum.
Kári í leiknum gegn Ungverjum á dögunum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Kári Árnason sagði á blaðamannafundi í London í morgun, að gagnrýni sem Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, og Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari hafi orðið fyrir sé ósanngjörn að sínu mati. 

Almenn ánægja hafi ríkt um þeirra störf á meðal landsliðsmanna. 

„Hann [Hamrén] og Freyr voru ósanngjarnt dæmdir af mörgum. Við náðum í 19 stig í riðlinum sem hefði átt að duga ef Frakkarnir hefðu klárað dæmið eins og menn. Þeir töpuðu fyrir Tyrkjum sem enginn bjóst við. Það er ætlast til að við förum á öll lokamót. En stundum dettur þetta ekki fyrir mann. Við áttum einn slakan leik og það var gegn Albaníu. Þótt við hefðum unnið hann hefðum við samt ekki komist áfram. Svo erum við að spila í A-deild í þessari keppni sem ég er búinn að gleyma hvað heitir [Þjóðadeildin]. Er hægt að ætlast til að við vinnum Belgíu eða Danmörku? Mér hefur þótt gagnrýnin á þessa þjálfara mjög óréttlát. Ég hef ekkert nema jákvætt um þjálfarana að segja og held að flestir séu á sama máli ef ég tala nú aðeins fyrir hópinn,“ sagði Kári en fundurinn var í tilefni þess að Ísland mætir Englandi í Þjóðadeildinni annað kvöld. 

Eins og fram hefur komið telur Kári líklegt að leikurinn gegn Englandi verði svanasöngurinn með landsliðinu. „Ég ætla ekki að gefa neitt út um það en það er mjög líklegt. En ég hef sagt að ég sé tilbúinn ef kallið kemur. Ef erlendur þjálfari tekur við þá efast ég um að hann leiti að 39 ára gömlum manni í Pepsí Max-deildinni til að nota í landsleiki. En ef þetta verður síðasti landsleikurinn þá er þetta flottur vettvangur,“ sagði Kári sem stefnir að því að leika áfram með Víkingi næsta sumar. 

„Ég get ekki skilið við Víkingana eftir svona tímabil sem var alls ekki gott. Maður veit svo aldrei hvað gerist í þessu varðandi landsliðið. Ef eitthvað kemur upp á í landsliðinu þá er ég alltaf klár.“

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson. Gagnrýni á þeirra störf hefur …
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson. Gagnrýni á þeirra störf hefur verið ósanngjörn að mati Kára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engir áhorfendur verða leyfðir á Wembley á morgun vegna kórónuveirunnar. 

„Þetta er orðið vel þreytt. Ég held að allir séu sammála um það. Þetta er bara ekki það sama og að spila fyrir framan áhorfendur, hvort sem leikvangurinn er stór eða lítill. Vonandi lagast ástandið. Það er meira að segja leiðinlegra að horfa á þetta í sjónvarpinu,“ sagði Kári sem var einnig spurður hvort sá kjarni sem leikið hefur stærstu hlutverkin í landsliðinu síðustu árin geti komist aftur í lokakeppni stórmóts. Sagði hann þá leikmenn alla vega vera þá bestu sem í boði eru. 

„Ég held að fréttamenn ættu nú bara að grátbiðja þessa menn að spila áfram með landsliðinu. Þú spilar bara með þitt sterkasta lið og þetta snýst ekki um neitt annað. Tími ungra manna kemur alltaf. Ég er töluvert eldri en þessi kjarni en þeir eru bara í kringum þrítugt. Þeir eru okkar bestu menn. Ég held að þeir eigi nóg eftir en þeir þurfa að sleppa við meiðsli. Sérstaklega leikmenn eins og Jói, Alfreð og Kolli. Þeir þurfa að finna lausn á því. Það þýðir lítið að tjasla sér saman og ná bara einum leik og meiðast svo aftur. En ef þeir haldast heilir þá eru þeir okkar bestu menn,“ sagði Kári Árnason en fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert