Tveir sterkir leikmenn í Fjölni

Dofri Snorrason
Dofri Snorrason Ljósmynd/Fjölnir

Knattspyrnudeild Fjölnis gekk í dag frá samningum við tvo sterka leikmenn en Dofri Snorrason gerði tveggja ára samning við félagið og Andri Freyr Jónasson þriggja ára samning.

Dofri er uppalinn hjá KR en hefur leikið með Víkingi Reykjavík síðustu sjö tímabil. Hann hefur leikið 138 leiki í efstu deild og skorað í þeim fjögur mörk og þá á hann 34 leiki í B-deild þar sem hann hefur skorað níu mörk. Dofri lék níu leiki með Víkingi í sumar, en hann getur leikið sem bakvörður og sem kantmaður.

Andri Freyr er framherji sem er uppalinn hjá Aftureldingu og hefur leikið með Mosfellsbæjarfélaginu allan ferilinn, alls 79 leiki í 1. og 2. deild og 11 leiki í bikar þar sem hann hefur skorað 49 mörk.

Fjölnir var í neðsta sæti Pepsi Max-deildarinnar þegar tímabilinu var aflýst og aðeins með sex stig og án sigurs. Liðið leikur því í 1. deild á næstu leiktíð. Fjölnismenn hafa verið duglegir að styrkja sig því Baldur Sigurðsson gerði samning við félagið á dögunum.

Andri Freyr Jónasson
Andri Freyr Jónasson Ljósmynd/Fjölnir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert