„Missti ekki andlitið“

KR féll úr úrvalsdeild kvenna eftir mikil skakkaföll vegna kórónuveirunnar.
KR féll úr úrvalsdeild kvenna eftir mikil skakkaföll vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Íris

„Ég get ekki sagt að ég hafi misst andlitið þegar ég heyrði af niðurstöðunni, “ sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, þegar mbl.is innti hann eftir viðbrögðum við dómi Áfrýjunardómstóls KSÍ. 

Áfrýjunardómstóllinn staðfesti úrskurð Aga- og úrskurðarnefndar þess efni að stjórn KSÍ hafi átt rétt á að blása Íslandsmótið af út frá lögum sambandsins.

„Fyrst og fremst eru þetta mikil vonbrgði og ég er ósammála efnislegri niðurstöðu dómsins. Það jákvæða er að við fengum þó alla vega efnislega umfjöllun sem er alla vega faglegri afgreiðsla en í stefndi um tíma. Dómstóllinn gefur stjórn KSÍ mikið svigrúm til ákvarðana. Það er þeirra skoðun. Ég er ekki sammála henni en maður er ekki alltaf sammála lögfræðilegri niðurstöðu. Ég get ekki sagt að ég hafi misst andlitið þegar ég heyrði af niðurstöðunni og hún kemur ekki á óvart enda er þetta dómstóll sambandsins,“ sagði Páll og nefndi eitt atriði sem að hans mati hefði verið áhugavert að sjá minnst á. 

„Maður saknar þess að sjá umræðu um hæfi einstakra stjórnarmanna KSÍ til að taka ákvörðunina um að aflýsa Íslandsmótinu. Eitt er að stjórnin hafi heimild til að gera það og svo er hæfi stjórnarmanna annað mál. Ekki er minnst á þetta atriði í dómnum.“ 

Spurður um hvort málinu sé lokið að hálfu KR-inga sagðist Páll ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu þar sem stjórn knattspyrnudeildar eigi eftir að hittast og ræða málin.

„Við þurfum aðeins að átta okkur á stöðunni og hvort þetta sé endanlegt eða hvort einhverjir möguleikar séu í stöðunni. Við gerum það í rólegheitum. En í framhaldinu á einnig eftir að koma í ljós hvort KSÍ sjái ástæðu til að aðstoða félögin fjárhagslega sem urðu fyrir tekjutapi. Ýmis kostnaður féll á félögin en það er kannski óverulegt í heildarsamhenginu. En ég velti því bara fyrir mér hvort sambandið muni koma eitthvað til móts við félögin. Það kann að vera að fjármunir hjá KSÍ hafi sparast þegar nokkrar umferðir féllu niður. Til dæmis í sambandi við dómarakostnað,“ sagði Páll Kristjánsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert