Valur skoraði átta mörk - KR og Fram steinlágu

Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Val.
Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Val. mbl.is/Hari

Valsmenn skoruðu átta mörk gegn ÍR í Reykjavíkurmóti karla í fótbolta í gærkvöld og bæði Fylkir og Fjölnir unnu líka stórsigra í leikjum sínum við KR og Fram.

Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Valsmenn í 8:0 sigri á Hertz-velli ÍR-inga í Mjóddinni. Sigurður Egill Lárusson skoraði tvö mörk og þeir Birkir Már Sævarsson, Kristófer Jónsson og Birkir Heimisson eitt hver.

Víkingur vann Leikni 2:0 á Víkingsvellinum þar sem Logi Tómasson og Helgi Guðjónsson skoruðu undir lok beggja hálfleika.

Fylkir afgreiddi KR í fyrri hálfleik í Árbænum en staðan var orðin 4:0 þeir flautað var til leikhlés. Nikulás Val Gunnarsson, Daði Ólafsson, Þórður Gunnar Hafþórsson og Arnór Borg Guðjohnsen skoruðu, og til að gera KR-ingum seinni hálfleikinn enn erfiðari var Grétar Snær Gunnarsson rekinn af velli í lok þess fyrri. Ekkert mark var þó skorað eftir hlé.

Fjölnir fór illa með Fram í Egilshöllinni og sigraði 6:1. Orri Þórhallsson skoraði tvö mörk, Andri Freyr Jónasson, Hilmir Rafn Mikaelsson, Kristófer Óskar Óskarsson og Viktor Andri Hafþórsson eitt hver fyrir Fjölni en Halldór Bjarki Brynjarsson skoraði mark Fram. Aron Kári Aðalsteinsson varnarmaður Fram var rekinn af velli á 36. mínútu þegar staðan var 2:0.

Valur fer örugglega í undanúrslit úr A-riðlinum með 9 stig og Víkingar eru nánast öruggir með annað sætið, einnig með 9 stig. Leiknir er með 6 stig, Þróttur og ÍR ekkert. Valur á eftir að mæta Leikni og ÍR á eftir að mæta Þrótti.

Fylkismenn standa mjög vel að vígi í B-riðlinum með 6 stig, Fjölnir og KR eru með 3 stig en Fram ekkert. KR á eftir að mæta Fram og Fjölnir á eftir að mæta Fylki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert