Sex mörk Víkings gegn FH – KR skoraði átta

Leikmenn Víkings fagna einu af sex mörkum sínum í dag.
Leikmenn Víkings fagna einu af sex mörkum sínum í dag. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þremur leikjum er lokið í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Víkingur Reykjavík gerði góða ferð í Hafnarfjörðinn og vann fimm marka sigur á FH og KR vann sex marka sigur á heimavelli gegn Fram.

Báðir þessir leikir voru háðir í riðli 2. Í leik FH og Víkings í Skessunni í Hafnarfirði komust heimamenn yfir á 21. mínútu. Þá skoraði Vuk Oskar Dimitrijevic eftir undirbúning Jónatans Inga Jónssonar.

Skömmu fyrir leikhlé, á 40. mínútu, jafnaði Karl Friðleifur Gunnarsson metin fyrir Víkinga og uppbótartíma fyrri hálfleiks tók liðið forystuna þegar Erlingur Agnarsson skoraði úr vítaspyrnu.

2:1 í hálfleik fyrir Víkinga. Enn seig á ógæfuhliðina hjá FH því Guðmundur Kristjánsson fékk beint rautt spjald strax í upphafi þess síðari.

Í kjölfarið gengu Víkingar á lagið. Erlingur Agnarsson skoraði fyrst, annað mark sitt í leiknum, og Nikolaj Hansen bætti svo við. Helgi Guðjónsson bætti svo enn á kvalir FH-inga með því að bæta við tveimur mörkum áður en yfir lauk. 6:1 því lokatölur, Víkingi í vil.

Í hinum leik riðils 2 var sömuleiðis markaveisla. Í leik KR og Fram á gervigrasvelli KR skoruðu heimamenn strax á 8. mínútu leiksins og tvöfölduðu svo forystu sína skömmu fyrir leikhlé.

Í síðari hálfleik brustu allar flóðgáttir, þar sem KR skoraði sex mörk til viðbótar og Fram skoraði tvö sárabótarmörk. Lokatölur því 8:2.

Óskar Örn Hauksson fór á kostum í dag og skoraði …
Óskar Örn Hauksson fór á kostum í dag og skoraði þrennu fyrir KR. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Í liði KR skoraði Óskar Örn Hauksson þrennu, Guðjón Baldvinsson skoraði tvö mörk og Pálmi Rafn Pálmason, Atli Sigurjónsson og Oddur Ingi Bjarnason skoruðu eitt mark hver.

Mörk Fram skoruðu Haraldur Einar Ásgrímsson og Aron Þórður Albertsson.

Í riðli 1 tók svo HK á móti Aftureldingu í Kórnum. Verk dagsins krafðist þolinmæði hjá HK en ísinn var loks brotinn eftir rúmlega klukkutíma leik. HK bætti svo við einu marki áður en yfir lauk og 2:0 sigur því staðreynd.

Úrslit úr leikjunum eru fengin af Úrslit.net. Markaskorarar úr leik KR og Fram eru fengnir af Fótbolta.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert