Skýr afstaða gegn ofurdeild

Höfuðstöðvar KSÍ eru við Laugardalsvöll.
Höfuðstöðvar KSÍ eru við Laugardalsvöll. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, tekur skýra afstöðu gegn fyrirhugaðri stofnun nýrrar ofurdeildar í Evrópu.

Í gær bárust fréttir af því að stærstu félög Evrópu ætluðu sér að setja á laggirnar svokallaða ofurdeild og draga sig þar með úr öllum keppnum á vegum UEFA.

Knattspyrnuheimurinn leikur á reiðiskjálfi vena þessa en ársþing UEFA fer nú fram í Nyon í Sviss þar sem málið verður rætt í þaula.

Yfirlýsing KSÍ:

KSÍ tekur skýra afstöðu gegn stofnun nokkurra af ríkustu knattspyrnufélögum í Evrópu á ofurdeild og lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun þessara félaga.

Samstaða og samheldni eru sterkustu gildi knattspyrnuhreyfingarinnar. Þessi gildi ná til knattspyrnusambanda og knattspyrnufélaga um alla álfuna og ákvörðun þessara félaga brýtur gegn þeim gildum. Það er óásættanlegt.

Það er von KSÍ að þessi félög sjái að sér og dragi fyrirætlanir sínar til baka, en ef ekki þá mun KSÍ styðja hverja þá ákvörðun um viðurlög eða refsingu sem tekin verður á sameiginlegum vettvangi knattspyrnuhreyfingarinnar.

mbl.is