Sagði mikið þurfa að gerast svo hann færi í Breiðablik – samdi við félagið í gær

Sölvi Snær Guðbjargarson í leik með Stjörnunni gegn Breiðabliki sumarið …
Sölvi Snær Guðbjargarson í leik með Stjörnunni gegn Breiðabliki sumarið 2019. Arnþór Birkisson

Sölvi Snær Guðbjargarson gekk í gær til liðs við Breiðablik frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni. Fyrir tveimur árum sagði hann þó að eitthvað mikið myndi þurfa til þess að hann semdi við félagið.

Í hinni hliðinni á Fótbolta.net fyrir rétt rúmlega tveimur árum, þar sem langur spurningalisti er lagður fyrir knattspyrnufólk, svaraði Sölvi Snær spurningunni „Hvaða liði myndir þú aldrei spila með?“ á eftirfarandi hátt:

„Það þyrfti mikið að gerast ef ég myndi fara í Breiðablik.“

Margt getur vitanlega breyst á tveimur árum og hugsanlega hefur eitthvað mikið gerst á þessum tíma sem hefur leitt til þess að Breiðablik varð fýsilegur áfangastaður fyrir Sölva Snæ.

Eftir að hafa verið þrálátlega orðaður við Breiðablik undanfarna mánuði samdi hann í það minnsta í gær við félagið til fjögurra ára.

mbl.is