Pólverjar náðu að jafna undir lokin

Wojciech Szczesny markvörður Pólverja er steini lostinn á meðan Brynjar …
Wojciech Szczesny markvörður Pólverja er steini lostinn á meðan Brynjar Ingi Bjarnason fagnar marki sínu í Poznan ásamt liðsfélögunum. AFP

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði í dag jafntefli gegn Pólverjum, 2:2, í vináttulandsleik þjóðanna í Poznan í Póllandi en þetta var lokaverkefni pólska liðsins fyrir Evrópukeppnina sem hefst um næstu helgi.

Óhætt er að segja að þetta séu góð úrslit fyrir íslenska liðið sem var án fjölda leikmanna í þessu þriggja leikja landsliðsverkefni sem lauk með leiknum í Poznan en Pólverjar voru með sitt sterkasta lið í dag. Þeir eiga framundan leiki við Slóvakíu, Spán og Svíþjóð í lokakeppni EM.

Pólverjar sóttu meira framan af leiknum og fengu fjórar hornspyrnur á fyrsta korterinu án þess að skapa sér teljandi marktækifæri. Rúnar Alex Rúnarsson varði af öryggi eina skotið sem kom á markið frá Jakub Moder á 11. mínútu.

Robert Lewandowski og Alfons Sampsted í leiknum í Poznan í …
Robert Lewandowski og Alfons Sampsted í leiknum í Poznan í dag. AFP

Ísland fékk fyrsta hættulega færi leiksins á 20. mínútu þegar Aron Einar Gunnarsson vann boltann rétt utan hægra vítateigshornsins og gaf á Birki Bjarnason sem lék inn í vítateiginn og átti skot í hliðarnetið nær, hársbreidd frá stönginni.

Ísland fékk tvær hornspyrnur í röð og sú seinni skilaði marki á 24. mínútu. Guðmundur Þórarinsson tók hornspyrnuna frá vinstri og sendi inn á markteigshornið nær, Aron Einar flikkaði boltanum áfram inn í markteiginn þar sem Albert Guðmundsson var mættur og lagði hann skemmtilega í vinstra hornið með hælspyrnu.

Það tók reyndar tvær mínútur að fá úr því skorið að markið ætti að standa. Dæmd var rangstaða á Albert til að byrja með en eftir myndbandaskoðun ákváðu dómararnir að markið hefði verið löglegt eftir allt saman. Staðan 0:1.

Pólverjar voru ekki lengi að jafna því á 34. mínútu komust þeir í snögga sókn og Piotr Zielinski skoraði með viðstöðulausu skoti af markteig eftir sendingu Tymoteusz Puchacz frá vinstri, 1:1.

Markahrókurinn Robert Lewandowski komst ekkert áleiðis í fyrri hálfleik gegn íslensku varnarmönnunum þar sem miðverðirnir Hjörtur Hermannsson og Brynjar Ingi Bjarnason, með Aron Einar í kunnuglegu hlutverki fyrir framan sig, stigu ekki feilspor í þéttum varnarleik íslenska liðsins.

Byrjun seinni hálfleiksins var frábær. Ísland fékk aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Póllands á 47. mínútu. Aron Einar renndi á Guðmund út til vinstri, hann kom með fína fyrirgjöf inn í miðjan vítateiginn. Þar stýrði Birkir Bjarnason boltanum fyrir fætur Brynjars Inga Bjarnasonar sem hamraði hann uppundir þverslána og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í þriðja landsleiknum. Ísland var komið yfir, 2:1.

Ögmundur Kristinsson kom í markið í byrjun síðari hálfleiks og var snöggur niður og varði eftir hornspyrnu á 62. mínútu. Hann þurfti aðhlynningu í kjölfarið en gat haldið áfram.

Pólverjar fengu loks hættulegt færi á 76. mínútu þegar Przemyslaw Placeta átti skalla hægra megin úr vítateignum eftir langa sendingu frá Lewandowski en Ögmundur varði vel.

Robert Lewandowski náði aldrei að snúa á Hjört Hermannsson í …
Robert Lewandowski náði aldrei að snúa á Hjört Hermannsson í Poznan og hér eigast þeir við út við hliðarlínu vallarins. AFP

Lewandowski fór af velli á 80. mínútu án þess að hafa náð að eiga eitt einasta marktækifæri í leiknum en hann var í strangri gæslu íslensku varnarmannanna allan tímann.

Ögmundur var aftur á tánum á 85. mínútu þegar hann varði fast skot og annað í kjölfarið frá Kacper Kozlowski.

Pólverjar náðu að jafna metin á 88. mínútu þegar Karol Swiderski tók við boltanum við vítapunkt eftir fyrirgjöf frá hægri og sendi hann í vinstra hornið, 2:2.

Ísland fékk tækifæri til að svara fyrir sig. Albert Guðmundsson tók aukaspyrnu og Hjörtur Hermannsson átti skalla af markteigshorninu hægra megin en beint á Szczesny í marki Pólverja.

Það var margt afar jákvætt við leik íslenska liðsins í dag. Varnarleikur liðsins var traustur og liðið átti ágæta kafla þar sem það hélt boltanum vel, byggði upp sóknir og skapaði sér marktækifæri. Þó fjölda leikmanna hafi vantað í þennan leik, sem og hina tvo, getur Arnar Þór Viðarsson byggt talsvert á þessari frammistöðu þegar kemur að stóru verkefnunum í undankeppni HM í haust. Margir leikmenn hafa nú gert tilkall til sætis í landsliðinu og svo virðist sem samkeppnin um stöðurnar hafi harðnað til muna síðustu tíu dagana.

Pólland 2:2 Ísland opna loka
90. mín. Aukaspyrna Íslands um 30 m frá marki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert