Sá fjórði sem nær fjögur hundruð leikjum á Íslandi

Hjörtur Hjartarson í leik með Víkingi gegn Leikni R. í …
Hjörtur Hjartarson í leik með Víkingi gegn Leikni R. í 1. deildinni árið 2012. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjörtur Hjartarson varð á dögunum aðeins fjórði leikmaðurinn í sögunni til að leika 400 leiki í meistaraflokki á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Hjörtur, sem verður 47 ára síðar á þessu ári, er enn að og spilar með liði SR í 4. deildinni í sumar. Í vor náði hann öðrum stórum áfanga þegar hann varð markahæsti leikmaður deildakeppninnar frá upphafi en þar hefur hann nú skorað 222 mörk. Hjörtur hefur skorað sex mörk í fjórum leikjum fyrir SR það sem af er þessu tímabili.

Þeir þrír sem áður hafa náð 400 leikjum í íslensku deildakeppninni eru methafinn og markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson sem lék 439 leiki þar til hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil, Gunnar Ingi Valgeirsson frá Hornafirði sem lék 423 leiki og lauk ferlinum fimmtugur að aldri með Sindra í 3. deildinni árið 2017, og Mark Duffield sem lék 400 leiki og spilaði síðast með Neista á Hofsósi í 3. deildinni árið 2006.

Hjörtur, sem er uppalinn á Akranesi og lék með ÍA upp alla yngri flokkana, leikur nú sitt 27. keppnistímabil í meistaraflokki, enda þótt hann hafi ekki leikið í meistaraflokki fyrr en árið sem hann varð tvítugur.

Hann spilaði fyrst með Skallagrími árið 1994, í C-deildinni, og lék með Borgnesingum í þremur efstu deildum Íslandsmótsins á árunum 1994 til 1999, að undanskildu árinu 1996 þegar hann lék með Völsungi. 

Hjörtur gekk síðan til liðs við uppeldisfélagið, ÍA, árið 2000 og lék með Skagamönnum í úrvalsdeildinni til 2006 en hann varð Íslandsmeistari með liðinu og markakóngur deildarinnar árið 2001.

Hjörtur Hjartarson á góðri stundu með Skagamönnum árið 2011.
Hjörtur Hjartarson á góðri stundu með Skagamönnum árið 2011. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann lék síðan með Þrótti 2007 til 2009, fyrst í 1. deild og síðan hálft annað tímabil í úrvalsdeild, en seinni hluta tímabilsins 2009 lék Hjörtur með Selfyssingum í 1. deild og hjálpaði þeim að vinna sér úrvalsdeildarsæti í fyrsta skipti.

Eftir það sneri hann aftur heim á Akranes og lék með ÍA í 1. deildinni í tvö ár, þá með Víkingi í Reykjavík í 1. deild í tvö ár, og aftur með ÍA í 1. deildinni árið 2014, þá á fertugasta aldursári.

Fimmtugsaldrinum hefur Hjörtur síðan varið í neðstu deildunum, tvö ár með Augnabliki, tvö með Kórdrengjum og nú annað ár með SR, en hann var alveg í fríi árið 2016 og lék einn leik árið 2019. Eftir að Hjörtur gekk til liðs við SR fyrir tímabilið 2020 hefur hann skorað 15 mörk í 14 leikjum fyrir liðið í 4. deildinni.

Leikir Hjartar, sem nú eru 401 talsins, skiptast þannig á milli deilda að 141 er í úrvalsdeild, 193 í 1. deild, 14 í 2. deild, einn í 3. deild og 52 leikir í 4. deild.

Þá er Hjörtur 31. íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikur 400 deildaleiki á ferlinum ef taldir eru saman allir leikir, heima og erlendis. Emil Hallfreðsson komst síðastur í þann hóp fyrr í sumar og Helgi Valur Daníelsson skammt á undan honum.

mbl.is