Emil náði stórum áfanga

Emil Hallfreðsson í landsleik Íslands og Englands síðasta haust.
Emil Hallfreðsson í landsleik Íslands og Englands síðasta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson náði stórum áfanga á ferlinum í dag þegar hann tók þátt í að koma Padova í úrslitaleik umspilsins um sæti í ítölsku B-deildinni. 

Leikurinn gegn Avellino, sem Padova vann 1:0 á útivelli, var 400. deildaleikur Emils á ferlinum og hann er þrítugasti Íslendingurinn í sögunni sem nær þeim fjölda deildaleikja.

Emil, sem verður 37 ára í lok þessa mánaðar, er uppalinn FH-ingur og spilaði 29 úrvalsdeildarleiki fyrir Hafnarfjarðarliðið á árunum 2002 til 2004 og var í liðinu sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins árið 2004.

Hann var í röðum Tottenham árin 2005 til 2007 en spilaði ekki deildaleik með enska félaginu. Emil var hinsvegar lánaður til Malmö í Svíþjóð og lék þar 19 leiki í úrvalsdeildinni.

Emil gekk til liðs við Lyn í Noregi sumarið 2007 en eftir að hafa spilað sinn fyrsta leik með liðinu kom ítalska félagið Reggiana til sögunnar og keypti Emil. Hann hefur leikið samfleytt á Ítalíu síðan, að undanskildum vetrinum 2008-09 þegar hann var lánaður til enska B-deildarfélagsins Barnsley.

Emil lék með Reggina í A-deildinni 2007-2009, með Verona frá 2010-16, eitt ár í C-deild, tvö í B-deild og þrjú í A-deild. Þá fór hann til Udinese og lék þar í A-deildinni til vorsins 2019, að undanskildu hluta úr tímabilinu 2018-19 þegar hann lék með Frosinone í sömu deild.

Emil gekk síðan til liðs við Padova í C-deildinni í janúar 2020 og hefur leikið með liðinu síðan. Það er nú komið í úrslit umspilsins um sæti í B-deildinni og tímabilinu er því enn ekki lokið hjá honum.

Emil hefur leikið 31 leik með Padova á yfirstandandi tímabili sem er það mesta sem hann hefur spilað á einu tímabili í sjö ár.

Hann er langleikjahæsti Íslendingurinn í ítölsku A-deildinni frá upphafi með 117 leiki og deildaleikir Emils á Ítalíu eru samtals 323. Hinir 77 leikirnir dreifast á Ísland, England, Svíþjóð og Noreg.

Til viðbótar á Emil að baki 73 leiki með A-landsliði Íslands  en hann lék með íslenska landsliðinu í lokakeppni EM í Frakklandi 2016 og á HM í Rússlandi 2018.

Emil er eins og áður sagði þrítugasti Íslendingurinn sem spilar 400 deildaleiki á ferlinum og sá fjórði sem nær þeim áfanga á þessu ári. Síðast var það Helgi Valur Daníelsson og á undan honum þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason. Íslandsmetið á hins vegar Arnór Guðjohnsen sem lék 523 deildaleiki á sínum tíma.

mbl.is