Fannst við töluvert betri meirihlutann af leiknum

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis.
Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis frá Reykjavík, var skiljanlega svekktur eftir 0:1-tap fyrir Keflavík á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Joey Gibbs skoraði sigurmarkið strax á fimmtu mínútu. 

„Þetta var skemmtilegur leikur og svipaður leikur og við gerðum ráð fyrir; að við myndum vera meira með boltann og þeir myndu vera beinskeyttir. Þeir gerðu það vel á meðan við sköpuðum ekki alveg nógu mikið af færum, þótt mér hafi fundist við gera nóg til að fá eitthvað út úr þessum leik,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leik. 

Sigurður segir Keflvíkingana ekki endilega hafa verið betri í upphafi leiks, þrátt fyrir markið í byrjun. „Mér fannst leikurinn í ójafnvægi og þeir beinskeyttir. Það var orka í þeim í byrjun. Mér fannst þeir ekki ofan á, heldur leikurinn í ójafnvægi.

Mér fannst við töluvert betri meirihlutann af leiknum og svo fáum við góð færi í lokin. Við þurftum bara að vera yfirvegaðri í færunum og koma boltanum í markið,“ sagði Sigurður. 

mbl.is