Eyjakonur nýttu færin betur í Árbænum

Íris Una Þórðardóttir hreinsar frá marki Árbæinga.
Íris Una Þórðardóttir hreinsar frá marki Árbæinga. mbl.is/Árni Sæberg

Opnu færin vantaði ekki þegar ÍBV sótti Fylki heim í Árbæinn í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta en með því að nýta tvö af sínum færum tókst Eyjakonum að sigra 1:2 og tryggja sjötta sætið.  Um leið skilja sig frá baráttunni á botninum en þar sem deildin er nú hálfnuð er ekki hægt að ganga að neinu sæti vísu.

Strax á 7. mínútu fengu Fylkiskonur tvö skot í markið en í fyrra skiptið varði Auður S. Scheving í marki ÍBV glæsilega skot Sæunnar Björnsdóttur og síðan tók vörnin skot Kolbrúnar Tinnu Eyjólfsdóttur.  Það vakti gestina og á 17. mínútu fékk Olga Sevcova upplagt færi ein á móti Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis og náði að koma boltanum framhjá henni en líka rétt framhjá stönginni.  Fylkiskonur voru heldur betri við að byggja upp sóknir sínar en Eyjakonur áttu þó sína spretti en aðeins eitt færi.  Næsta færi kom á 23. mínútu átti Shannon Simon þrumuskot rétt utan teigs en boltinn strauk slána alveg upp við stöngina.  Er leið á fyrri hálfleikinn náðu gestirnir úr Eyjum vopnum sínum og hófu að bæta sóknarleikinn en vörn Fylkis gaf fá færi á sér.   Eins og hinu megin átti Fylkir sínar sóknir og á 42. mínútu gaf Þórhildur Þórhallsdóttir sendingu frá hægri kanti beint á kollinn á Bryndísi Örnu Níelsdóttur fyrir miðju marki en hún skallaði yfir markið af stuttu færi, verulega gott færi.  Það var samt enn tími fyrir Eyjakonur og á 44. mínútu tók Þóra Björg Stefánsdóttir aukaspyrnu rétt utan vítateigs og hún smellhitti boltanum upp í hægra hornið.

Aðeins voru liðnar tæpar tvær mínútur af síðari hálfleik þegar Tinna Brá í marki Fylkis gaf slaka sendingu sem átti að að fara á félaga hennar en Olga komst á milli, smeygði sér framhjá einum varnarmanni Fylkis og skoraði af öryggi framhjá Tinnu Brá í hægra hornið.  Mínútu síðar átti Bryndís Arna aftur skalla að marki íBV en Auður í markinu varð að taka á öllu sínu, stökk upp við slána og náði að slá boltann yfir.  Greinilegt var að Árbæingar ætluðu ekki að sætta sig við þetta og voru grimmari um völlinn en Eyjakonur stóðu af sér lagið og voru snöggar að sækja um leið og færi gafst, sýndust yfirvegaðar og réðu því sem þær vildu ráða en hart var sótt á báða bóga.  Svo kom að því að Fylkir minnkaði metin þegar Bryndís Arna skoraði með glæsilegu skoti á 78. mínútu.   Þá færðist fjör í leikinn, Fylkiskonur gáfu allt sitt en Eyjakonur voru klókar, leyfðu þeim að hlaupa en lokuðu á færin.

Fylkir 1:2 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is