Hef aldrei áður tapað fjórum í röð

Kristinn Freyr Sigurðsson og Guðmundur Þór Júlíusson í leiknum í …
Kristinn Freyr Sigurðsson og Guðmundur Þór Júlíusson í leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

„Ég var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn. Mér fannst við samt byrja leikinn sterkt en fjaraði síðan undir þessu. HK eru með gott lið og erfiðir hérna inni í Kórnum,” sagði Heimir Guðjónsson sáttur eftir 3:0 sigur á HK í Kórnum nú í kvöld.

„HK-ingar sköpuðu sér góð færi, við vorum pínulítið sjálfum okkur verstir og vorum að missa boltann á slæmum stöðum, hefðum mátt vera nær mönnunum okkar og vinna seinni bolta. Eftir að Patrick skoraði þetta mark þá fannst mér við spila á löngum köflum mjög vel í þessum leik.”

Það var allt annað Valslið sem kom á völlinn í seinni hálfleik og voru þeir mun sterkari en HK-ingarnir.

„Í hálfleik minnti ég bara strákana á að það var 0:0 í hálfleik uppi á Skaga og við töpuðum þeim leik og 1:0 yfir gegn Stjörnunni í Garðabænum og töpuðum þeim leik líka og við þyrftum að halda áfram og það var bara það eina sem ég ræddi. Ég er ekki með eitthverjar stórkostlegar ræður í hálfleik.

Srdjan Tufegdzic og Heimir Guðjónsson þjálfarar Vals ræða mállin.
Srdjan Tufegdzic og Heimir Guðjónsson þjálfarar Vals ræða mállin. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fyrir þennan leik í kvöld voru Valsmenn búnir að tapa fjórum leikjum í röð.

„Mér fannst við svara því vel að koma hingað og vinna. Ég hef aldrei tapað áður fjórum leikjum í röð, held ég. Þannig að það var mjög fínt að vinna þennan leik.”

Á fimmtudaginn sl. spiluðu Valsmenn við Bodø/Glimt í Sambandsdeildinni og töpuðu þar 3:0 á heimavelli. Hvernig líst þér á seinni leikinn?

„Bara vel, það voru vonbrigði að við skyldum ekki spila betur á fimmtudaginn en 3:0 og við verðum að fara til Noregs og klára verkefnið með sæmd og ég met stöðuna þannig að það séu enn þá möguleikar og við verðum að trúa á þetta,” sagði Heimir að lokum.

mbl.is