Allt út um allt og gekk ekki neitt

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis mbl.is/Haukur Gunnarsson

„Mér fannst alveg við það að verða góðir í fyrri hálfleik  en seinni hálfleikur var algert afhroð a til ö,“  sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir markalaust jafntefli gegn HK í Breiðholtinu í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

„Við mættum eiginlega ekki til leiks, þurftum að gera tvær breytingar og hræra vel í liðinu í hálfleik auk þess að mér tókst greinilega ekki að koma því nægjanlega til skila hvað ætti að gera í seinni hálfleik svo þetta varð bara allt út um allt og gekk ekki neitt. Við vorum mjög ósáttir með seinni hálfleikinn en hirðum samt þetta stig og það er líka gott að halda líka hreinu.“

Fleiri stig hefðu komið sér vel fyrir Leikni því þó liðið sé um miðja deild er ekkert langt í baráttuna á botni deildarinnar enda segir þjálfarinn sigur markmiðið.    „Við ætluðum bara að vinna þennan leik, það var ekkert annað sem kom til greina en svo þróast hann einhvern veginn.  Við ætluðum eitthvað að reyna pressa á HK-menn í seinni hálfleik en það gekk ekki neitt og varnarleikurinn var allur út um allt en þetta var mikill lexía fyrir mig og liðið hvernig við mættum í seinni hálfleikinn,“  bætti þjálfarinn við.

Okkur vantaði hungur í að éta hvern bolta

Bjarki Aðalsteinsson fyrirliði Leiknis var ekki frekar en þjálfarinn sáttur við leikinn. „Við getum sagt að það hafi verið haustbragur á þessum leik.   Mér fannst þetta svolítið eins og leikur tveggja hálfleika.  Mér fannst fyrri hálfleikurinn hjá okkur þokkalegur miðað við það seinni.  Við þurftum að gera tvær breytingar rétt fyrir hálfleik og um leið hrókera leikmönnum en mér fannst við ekki leysa það eins og ég hefði viljað.   Mér fannst við ekki nógu grimmir framarlega á vellinum í pressunni og það vantaði hungur að éta hvern bolta og skora bara mark.  Mér fannst bara vanta upp á það því HK var ekkert á fá mikið af dauðafærum,“  sagði Bjarki fyrirliði eftir leikinn. 

mbl.is