Mér finnst í raun kraftaverk að við héldum okkur uppi

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að leikurinn hjá okkur í heild sinni hafi ekki verið svo slæmur en það má segja að hann hafi verið eins og í hnotskurn okkar tímabil þegar við erum í góðum gír en missum menn þá í meiðsli og Elís Rafn fer útaf meiddur en hann hefur verið til fyrirmyndar í sumar og spilað margar stöður á vellinum,“  sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar eftir 0:2 tap fyrir KR þegar liðin mættust í dag í Garðabænum í lokaumferð efstu deildar karla í fótbolta.   

Garðbæingar vildu meira fyrir sinn snúð í sumar en þjálfari, fyrirliði og forráðamenn liðanna í deildinni spáðu Stjörnunni 5. sætinu þó falldraugurinn hafi lengi sveimað yfir Garðabænum.  „Það virðist hafa verið álag á okkur varðandi ýmsa hluti en ég held að liðið og við allir í kringum það höfum staðið okkur gríðarlega vel og í raun kraftaverk að við skyldum halda okkur upp í deildinni.   Stjórn, og stuðningsmenn, eiga líka heiður skilin fyrir hvernig hún hélt á spöðunum, hefur haldið ró sinni þó menn hafi auðvitað stundum verið pirraðir enda stoltið sært eftir að hafa gengið gríðarlega vel undanfarin ár.  Það sýnir hinsvegar styrk félags að halda ró sinni og halda samstöðunni þegar á móti blæs.  Það kemur oft fyrir í fótboltanum og þá þarf að taka því og það gerðum við nógu vel til að halda okkur upp í sjöunda sæti sem ég held að sé gott en ég held líka að ég hafi aldrei upplifað eins mótlæti hvað varðar meiðsli og hitt og þetta.  Hlutir hafa ekki gengið upp, í sumum leikjum var dómgæslan skelfleg en við áttum líka skelfilega leiki.  Boltanum var jafnvel leyft að fara útaf án þess að væri flautað og ýmsa reglur notaðar en við verðum að horfa í það að við gerðum vel og ég hrósa drengjunum í hástert.“

Þorvaldur tók við af  Rúnari Páli Sigmundssyni snemma í mótinu en sá hafði þjálfað liðið í allt af 8 ár.  Verður Þorvaldur áfram við stýrið og svo eru nokkrir leikmenn aðeins eldri þó það hafi ekki sést í leiknum í dag.  „Nú er tímabilið búið, menn fara í lokahóf í kvöld og svo hitti ég þessa ágætu menn í Stjörnunni í næstu viku.  Við ræðum þá framhaldið og menn velta þessu fyrir sér.  Menn hafa verið á tánum og næstum með kúkinn í buxunum með að falla.  Við spjöllum bara saman í næstu viku, það hefur verið pressa á mönnum og  mikið taugastríð,“  bætti þjálfarinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert