Víkingur 45 mínútum frá titlinum

Stuðningsmenn Víkings fagna af innlifun í dag.
Stuðningsmenn Víkings fagna af innlifun í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú þegar flautað hefur verið til hálfleiks í öllum sex leikjum lokaumferðar úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, hafa fimm mörk litið dagsins ljós.

Tvö þeirra komu í Fossvoginum og skoruðu heimamenn í Víkingi úr Reykjavík þau bæði gegn Leikni úr Reykjavík. Þar með eru Víkingar hársbreidd, aðeins 45 mínútum, frá fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum í 30 ár.

Fyrra markið skoraði tilvonandi markakóngur deildarinnar, Nikolaj Hansen, eftir hálftíma leik með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Kristals Mána Ingasonar. Um var að ræða 16. mark Hansens í hans 21. leik í deildinni í sumar.

Það síðara skoraði Erlingur Agnarsson. Hann fékk þá sendingu inn í vítateig frá Hansen og skoraði með laglegu skoti upp í nærhornið.

Ólafur Guðmundsson kom þá FH-ingum á bragðið gegn KA á Akureyri.

Patrick Pedersen kom Valsmönnum í forystu gegn þegar föllnum Fylkismönnum í Árbænum.

Í fallbaráttuslag Keflavíkur og ÍA fengu gestirnir af Akranesi upplagt tækifæri til þess að komast yfir á 15. mínútu en Steinar Þorsteinsson fór á taugum og þrumaði yfir markið úr vítaspyrnu.

Undir lok hálfleiksins kom Ástbjörn Þórðarson heimamönnum í Keflavík hins vegar yfir. ÍA þarf á sigri að halda til þess að eygja von um að halda sér uppi í efstu deild.

Í hinum tveimur leikjunum, á milli Breiðabliks og HK og Stjörnunnar og KR, er markalaust í hálfleik.

Allir sex leikirnir eru í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Staðan í hálfleik í lokaumferðinni:

Víkingur R. – Leiknir R. 2:0

Breiðablik – HK 0:0

Keflavík – ÍA 1:0

KA – FH 0:1

Stjarnan – KR 0:0

Fylkir – Valur 0:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert