Vanda er að drepa strákana

„Ég og maðurinn minn fluttum á Sauðárkrók með ungan son okkar en foreldrar mínir bjuggu í bænum og við vildum vera nálægt fjölskyldunni,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Vanda, sem er uppalin á Sauðárkróki, tók við karlaliði Neista frá Hofsósi árið 2001 sem þá lék í 3. deildinni en enn þann dag í dag er hún eina konan sem hefur stýrt karlaliði hér á landi.

Vanda hafði áður stýrt Breiðabliki, íslenska kvennalandsliðinu og KR og gert bæði Breiðablik og KR að Íslandsmeisturum en hún tók við formannsembætti KSÍ í október á þessu ári.

„Það var bankað á hurðina hjá mér eitt kvöldið, vorið 2001, og þá stóðu þau tvö fyrir utan hurðina hjá mér sem spurðu mig hvort ég hefði áhuga á því að taka við Neista,“ sagði Vanda.

„Ég kíkti út um dyragættinni og fór að leita að földu myndavélinni því ég trúði því ekki að þeim væri alvara. Liðið hafði verið þjálfaralaust frekar lengi og var ekki í neitt frábæru formi.

Ég var að reyna koma þeim í form á sem stystum tíma og það gekk sú saga um bæinn að Vanda væri að drepa Neistamenn,“ sagði Vanda meðal annars.

Viðtalið við Vöndu í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert